Chile, Pucon. Augu fórnarlambs

“Ó, þú Guðs lamb Kristur, þú sem burt berð heimsins syndir,
miskuna þú oss.”
Þennan söng heyrði ég hvern sunnudag þegar ég var barn í messu hjá pabba mínum. Þetta er fallegur söngur og þetta er eitt af því sem ég man frá tíðum kirkjuferðum mínum, meira en 40 árum seinna.

Ég velti þessum söng fyrir mér af tveimur ástæðum. Annað lamb hafa skotist hærra á vinsældarlista dagsins. Það situr á toppnum, hið svokallaða fórnarlamb. Ég sé augu þess fyrir mér. Ég velti því fyrir mér.

Ég velti kvöldmáltíðinni líka fyrir mér. Við erum enn í chileanskri sveit. Út um gluggann á leiguhúsinu eru kýr á beit. Engin lömb. Og gamli skólastjórinn, sem leigir okkur húsið og býr í öðru litlu húsi hér rétt ofar, er á vappi. Sinnir blómunum sínum, vökvar þau, klappar þeim og snyrtir. Svo stoppar hann og kemur gangandi til okkar þar sem við sleikjum sólina á veröndinni. Honum finnst gaman að tala. Nú á hann brýnt erindi. Hann hefur keypt hálft lamb, og það er hvorki fórnarlamb né Guðs lamb, hann hefur keypt fjallalamb á grillið. Og spyr hvort við viljum ekki gera sér og konu hans þann heiður að borða lambið með honum í kvöld klukkan 21:30. Við skulum ekki neyta síðustu kvöldmáltíðarinnar saman heldur síðbúinnar kvöldmáltíðar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.