Chile, Chiloé. LiFi sem staðalbúnaður

Ég vaknaði í morgun með þá hugmynd að ég þyrfti að nota tvo til þrjá tíma til að lesa leikrit Tsjekhovs, Þrjár systur. Ég hafði rétt opnað augun þegar ég byrjaði að upphugsa bestu leiðina til að komast yfir eintak af verkinu. Mig langar helst til að lesa það á íslensku, en var fljótur að átta mig á að það væri vonlaust verkefni að ná í íslenska þýðingu af leikritinu. Helst væri að kaupa enska útgáfu í gegnum Amazon. En hér á eyjunni Chiloé er mjög stopult internet svo ég verða að sæta færis. Ég las aftur á móti fyrir tilviljun að Apple fyrirtækið, sem við elskum svo mjög, íhugi að gera LiFi að staðalbúnaði í tölvum sínum á næsta ári. Yo, það verður gaman.

Eftir 6 tíma keyrslu í gær enduðum við á Chiloé, eyju undan vesturtrönd Chile. Við höfum keyrt án gps tækis um Nýja Sjáland, ferðast um Buenos Aires án gps og nú er það Chile án gps. Ég hélt að ég ætti aldrei aftur eftir að rata án gps-tækis. En Chile gerir okkur lífið létt. Hér er það þjóðvegur 5 sem leiðir okkur til allra átta, eins og þjóðvegur 1 á Íslandi.

Chiloé er nokkuð stór eyja, um 100 km endana á milli. Það er ekki hægt að dásama arkitektúr bæja og þorpa hér. Samræmið er þó óneitanlegt; óvönduð tréhús meira eða minna að hruni komin. Hér er venja að klæða húsin með einhvers konar tréflögum sem mynda hreystur utan á húsunum. Oft eru húsin þar að auki máluð í skærum litum. Hvorki auka hreysturflögurnar né skærliturinn fegurðina.

Okkur var fagnað þegar við komum að kofanum sem við höfum leigt. Þetta er lítill kofi sem liggur niður við ströndina. Eigandinn er perúsk kona, mjög kvik og hressileg, jógakennari og ferðamálafrömuður hér á eyjunni. Hún býr í húsi ofar á lóðinni ásamt þremur dætrum, (þrjár systur). Eiginmanninn höfum við ekki séð hann er á ferðalagi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.