Chili, Chiloé. Bjarnargreiði

Frá kofanum okkar hér í Chiloé-eyjunni er langur og brattur malarvegur sem liggur inn á þjóðveginn. Þennan malarveg verður maður að keyra mjög hægt og varlega vilji maður halda pústkefinu heilu undir bílnum. Í dag þegar við skröltum löturhægt eftir veginum var skyndilega bankað á hliðarrúðuna farþegamegin. Ég snarstansaði og opnaði gluggann til að heyra hvað maðurinn, sem hafði hlaupið okkur uppi, vildi. Þetta var ungur maður á fertugsaldri, með hanakamb og með snjáðann bakpoka í annarri hendi.
“Eruð þið á leið til Ancud?” spurði hann á lýtalausri ensku. (Ancud er bær hér á eyjunni og sá bær sem er næst kofanum.)
Við litum hvert á annað. Jú, við vorum á leið til Ancud. En vildum við fá þennan mann með í bílinn? Það var spurningin sem var í augum okkar allra. Mér leist satt að segja ekkert sérlega vel á manninn og mér dettur alltaf í hug raðmorðingjar  þegar ég sé unga karlmenn standa á puttanum við vegakant.
“Jú, við erum á leið til Ancud,” segir Sus.
“Halló, ég hefði auðvitað átt að byrja á því að heilsa, mætti ég nokkuð sitja í?” Ungi maðurinn brosti sínu besta brosi. En mér fannst það bara í meðallagi sannfærandi. Hann settist inn og eftir stuttan spöl reyndi hann á kurteislegan hátt að fá okkur til að keyra hann enn lengra norður en Ancud.
Þetta gæti endað illa, hugsaði ég. Okkur tókst þó að koma honum í skilning um að við mundum stoppa fyrir hann í Ancud.
Hann sagðist vera “globtrotter” og hefði síðust sex ár verið í Trinitad, en væri nú fluttur hingað til “that bloddy island” og ætlaði sér að setjast að. (Hví skyldi hann lýsa eyjunni sem blóðugri? hugsaði ég með hryllingi.)
Nú hafði hann skráð sig í kerfi á netinu sem “organic” bændur hafa komið sér upp þar sem hægt er að bjóða aðstoð við að rækta land gegn mat og húsaskjóli. Og nú bjó hann hjá konu rétt fyrir ofan kofann okkar og aðstoðaði hana og fékk mat og þak yfir höfuðið. (Ég sá konuna fyrir mér liggjandi í blóði sínu og hann búinn að fá fylli sína á leið til næsta áfangastaðar.)
Allt endaði þetta þó vel. Maður kvaddi kurteislega og þakkaði fyrir sig.

Daníel Magnússon myndlistarmaður.
Ég hef áður tekið puttalinga upp. Minn minnistæðasti farþegi er Daníel Magnússon, myndlistarmaður. Ég var nýbúinn að fá bílpróf. Það var föstudagskvöld og ég var hálvegis í öngum mínum. Nýbyrjaður í MH og mér fannst ég algerlega utanvelta, fjarlægur öllum og átti að mér fannst enga nána vini. Eða að minnsta kosti ekki neinn sem ég hafði uppburði til að hringja í eða heimsækja. Ég hef svo sem aldrei verið leitandi eða þurfandi eftir félagsskap. En þetta föstudagskvöld var ég vansæll og spurði foreldra mína hvort ég mætti fá bílinn þeirra lánaðan. Ég hafði hugsað mér að keyra smárúnt. Ég fékk bílinn. Ekki leið á löngu þar til að ég fann mig í Stigahlíðinni keyrandi hring eftir hring framhjá húsi sem ung stúlka sem ég kannaðist við bjó í. Hún hafði nokkrum sinnum gefið sig á tal við mig í MH og sest mér við hlið í tímum. Mér fannst hún svolítið sæt. Meira þurfti ekki til. Ég vonaðist eftir að sjá henni bregða fyrir í glugga eða úti á stétt, en samtímis óttaðist ég mest af öllu að hitta hana.
Eftir nokkra hringi í Stigahlíðinni ákvað ég þetta gengi ekki og keyrði niður, Miklubraut og sneri við á hrigtoginu við Hringbraut og keyrði til baka. Og þá stendur maður á puttanum við strætóskýlið fyrir ofan BSÍ. Ég ákvað að taka þennan mann upp, enda kannaðist ég við hann sem Daníel.
Hann settist upp í, kaldur, enda var snjór og hörkufrost.
Ég spyr á hvaða leið hann sé.
Hann segist vera á leið til Garðabæjar.
“Nú já, ég var svo sem ekki á leið í þá átt en ég gæti vel keyrt hann.”
Og svo keyrði ég Daníel til Garðabæjar, þetta forstkalda föstudagskvöld þegar ég hafði ekki annað betra við líf mitt að gera.
Á leiðarenda steig Daníel út.
Hann beygði sig niður í dyragættina og leit inn í dimman bílinn og sagði þessi orð sem ég  hef ekki enn alveg skilið.
“Takk fyrir farið. Þetta var sannkallaður bjarnargreiði.”

 

 

 

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.