Chile, Santiago. Á stríðssvæði

Við komum til höfuðborgar Chile, Santiago í dag eftir 4 tima keyrslu eftir þjóðvegi 5. Santiago er fimmti stærsti bær Suður-Ameríku. Og þetta er gríðarstór borg, bæði nútímalegur og fátæklegur. Við höfum leigt litla íbúð í fjölbýlishúsi í Providenci hverfinu. Einum af betri bæjarhlutum Santiago.

 

Við Númi höfðum ákveðið að sjá topplið Chile, Cola Cola, spila klukkan fimm þannig að við náðum varla upp í íbúðina áður við rukum af stað út á heimavöll Cola Cola, Estadio Monumental David Arellano. Við náðum leigubíl úti á götu og ungur leigubílstjóri sem talaði bara spænsku keyrði okkur. Hann hafði mikinn áhuga á að spjalla. Ég tók því fram app frá Google sem þýðir spænskt talmál yfir á enskt ritmál. Hann gat því talað og talað og þýðingin kom jafnóðum á skjáinn á símanum mínum. Rosalega smart hjá Google.

Mikilvægustu skilaboð hans voru: Aðdáendur Cola Cola er ekki gott fólk, hann var sjálfur stuðningsmaður, en á fótboltavellinum er hættulegt. Ég yrði að fara varlega, passa Núma og passa að ég verði ekki rændur. Noh. Ekki fannst mér þetta gott. En var svo sem ekki sérlega stressaður yfir þessu.

Fyrir utan leikvanginn var allsherjar upplausn. Áhorfendur streymdu að úr öllum áttum, flestir í hvítum treyjum, einkennisbúning Colo Colo, flestir ungir karlmenn. Undantekningarlaust voru þeir gæfulitlir að sjá og af þeim lýsti bæði fjandskapur og ógæfa. Hundruðir hermanna stóðu vakt, þungvopnaðir og klæddir allskyns hlífum sem ég hef ekki séð fyrr. Og þeir voru ekk lengi að velja þrjá ógæfulega menn, snúa þá niður og handjárna. Og á augabragði voru þeir komnir inn í herbíl. Við innganginn var  lögreglan líka alvopnuð.

Eftir töluverða röð komumst við að innganginum og þar tók á móti okkur ung stúlka, þybbin útgáfa af Lisbeth Salander, en vísaði okkur samstundis til baka af því að við vorum ekki með vegabréf með okkur. Mér tókst að ná sambandi við hana aftur og sýndi henni ökuskírteini mitt, en hún vildi líka fá skírteini frá Núma. Ég sagðist ekki hafa það, þetta væri sonur minn og hann var í minni fylgd. Hún sagðist vilja athuga hvort þetta væri í lagi. Á meðan á þessu gekk stóðu tugir ungra manna sem hafði verið höfnuð innganga og hrópuðu og kölluðu. Þeir vildi fá inngöngu og þeir héldu áfram að pönkast í stúlkunni og öðrum manni sem höfðu yfirumsjón á svæðinu.

Ég hafði hringt í Sus og fengið hana til að senda mynd af passanum hans Núma. En svo virkaði farsíma-internetið ekki á svæðinu. Mér tókst að plata unga miðasölustúlku til að hleypa mér inn á wifi vallarins og þannig tókst mér að ná í passamyndina af Núma.

Ég reyndi enn á ný að ná sambandi við hina þybbnu Lisbeth, og enn hikaði hún. Ég sýndi henni aftur ökuskírteini mitt, myndina af Númapasa. En hún var ekki viss. Nú var klukkutími liðinn og ákafi hinna gæfulausu ungu manna var ekki orðinn minni þrátt fyrir þeim var ítrekað sagt að þeim yrði ekki hleypt inn. Nú var aðstoðarmaður Lisbethar kallaður til (enginn kunni ensku) og hann kíkti á myndir og miða og hann sagði “one moment” eins og allir aðrir. Ég hálfgreip í Lisbeth og sagði með minni bestu ítölsku. Hvert er vandamálið? Segðu mér hver vandinn er. Hún leit á mig. Loks náði ég augnasambandi við stúlkuna, hún hafði alltaf litið flöktandi undan, í allar áttir og aldrei horft í augun á mér, sem er ótrúlega óþægilegt þegar maður vill reyna að ná sambandi við fólk. Og enn á ný skoðaði hún ökuskírteini og Númapassa. Og spurði svo hvert er númerið á vegabréfinu mínu. Ég skáldaði eitthvert númer. Ég skildi ekki mikilvægi þess að hún fengi passanúmerið hjá mér. Hún stimplaði númerið inn í litla handtölvu: REJECTED. Ó, nei. Nú mundi ég að ég hafði gefið upp passanúmerið mitt þegar ég keypti miðann og númerið var inni á símanum  mínum. Ég fletti upp og gaf upp nýtt númer og loks komumst við inn. Seinni hálfleikur var að byrja.

Það var steikjandi sól og 34 stiga hiti á áhorfendapöllunum. Aumingja fótboltamennirnir að spila í þessum hita. Enda var leikurinn hægur og tilþrifalítill. Við ákváðum að fara út af vellinum áður en leiknum lauk til að komast hjá vandræum þegar við færum út. Það var skynsamleg ráðstöfun því það stefndi allt í fullkomna kaos.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.