Komum í gær út í Atacama eyðimörkina í norður-Chile sem liggur í 2500 metra hæð. Hingað flugum við frá Santiago. Við búum í litlu þorpi, San Pedro sem liggur í vin í eyðimörkinni. Á sem kemur frá Andersfjöllunum rennur í gegnum eyðimörkina og gerir það mögulegt að lifa hér. Bærinn er ansi rykugur og saltur enda eyðimörkin gamall hafsbotn. Húsin eru byggð úr leir.

Í morgun fengum við lánuð hjól og hjóluðum 18 km leið út að litlu lóni sem hægt er að synda í. Lónið er brimsalt og hressandi kalt í brennandi hitanum. Það var stórkostlegt að vera ein út í eyðimörkinni og fljóta í lóninu. Ég hef aldrei fyrr prófað að synda í svona söltu vatni og það var ótrúlegt. Engin leið er að sökkva, og nánast ómögulegt að synda því fæturnir lyftast alltaf upp úr vatninu.
Hér verðum við fram á föstudag og þá fljúgum við áfram til Kúbu.