Hér í Atacamaeyðimörkinni er koldimmt um nætur og kjöraðstæður til að skoða stjörnurnar. Ég vaknaði í nótt klukkan 03:30, eins og oft áður. Ég lá og reyndi að sofna aftur, fannst ég ætti að sofa lengur þótt mér þætti ég í rauninni hefði sofið nóg. Á síðari árum vakna ég oft um miðja nótt og get ekki sofið og þá hvirflast um mig allskyns hugsanir í myrkrinu eins og gengur og gerist. Ekki allar merkilegar, kannski fæstar.
Í nótt var mér hugsað til samtals sem ég átti við mann í Reykjavík, nánar tiltekið á horni Túngötu og Ægisgötu. Ég hafði komið hjólandi upp Túngötu á leið á mitt gamla forlag. Hann kom gangandi, með ullarhúfu á hausnum, niður Túngötuna. Þetta var síðdegis um vetur fyrir mörgum árum. Ég man að það var vetur af því að ég virti fyrir mér snjóinn á hjólateinunum á hjólinu mínu á meðan samtal okkar tveggja fór fram. Ég hafði stoppað til að hefja spjall því ég þekkti manninn vel, en ég fann strax að hann var tregur. Það var þess vegna ég, aldrei þessu vant, sem sá um að tala. Það var langt síðan hann hafði látið sjá sig á forlaginu, hann hefði oft verið þar tíður gestur, og ég spurði hann hverju það sætti að hann var hættur að koma. Hann flissaði án þess að svara og horfði á mig bæði vandræðalegur og eins og eitthvað væri spaugilegt því hann flissaði á afláts. Allan tímann á meðan spjallinu stóð hann gerði sig líklegan til að halda göngunni áfram en hafði samt ekki kjark í sér til þess að slíta þessu vandræðalega samtali. Ég átti mjög erfitt með að túlka hvað þetta allt ætti að þýða. Svo ég reyndi að slá á létta strengi. Hann flissaði bara. Svo ég kvaddi. Hjólaði áfram og furðaði mig á þessum fundi lengi á eftir.
Næsta vor þegar ég var staddur við bústörf á Ítalíu fékk ég bréf frá þessum sama manni. Í bréfinu minntist hann ekki orði á fund okkar á horni Túngötu og Ægisgötu. Þótt ærin ástæða hefði verið til þess.
Í nótt, meira en 10 árum síðar, verður mér enn hugsað til þessa samtals án þess að komast að niðurstöðu.