Chile, San Pedro. Judith Hermann

Á morgun fljúgum við til Kúbu. Ég geri ekki ráð fyrir miklu sambandi við umheiminn á þeim 12 dögum sem við erum gestir þar. Kúbanir eru rétt að uppgötva veraldarvefinn um þessar mundir og eini möguleikinn til að komast á netið er að stinga sér inn á eitt af stóru, alþjóðlegu hótelunum í Havana og það er víst ekki heldur létt.

Enn á ný lá ég andvaka í nótt. Ég veit hreinlega ekki hvað amar að mér. Það er frekar regla en undantekning að ég liggi milli klukkan 3 og 5 eða 6 og geti ekki sofið. Í nótt læddist til mín minning um þýsku skáldkonuna Judith Hermann. Það eru undarlegustu hlutir sem koma skríðandi aftan að manni í skjóli næturmyrkurs.

Við gáfum út smásagnasafn Judithar, Sumarhús seinna,  árið 2002 og af því tilefni  kom hún til Íslands og var tíður og góður gestur á forlagsskrifstofunni. Hún dvaldi þar löngum stundum og spjallaði. Hún var sjarmerandi og áhugaverð. Ég man að eitt sinn kom Birgir Jóakimsson í heimsókn þegar hún var stödd á forlaginu og sýndi barnajóga á gólfinu. Við vorum um þær mundir að undirbúa útgáfu á bók hans ÉG ER SLANGA sem kenndi jógaæfingar fyrir börn. Hann vakti sannkallaða lukku. Í fylgd Judithar var ungur, þýskur ljósmyndari. Ágætur maður.

Íslandsdvöl hennar hafði eftirmála. Hún skrifaði mér langt bréf þegar ég hafði ákveðið að gefa út aðra bók eftir hana nokkrum árum seinna. Í bréfinu lýsti hún því að bókin mundi bara vekja uppnám og gamla drauga á Íslandi. Svo bað hún mig að gefa bókina ekki út. Fleiri en hún voru fegnir að bókin kom aldrei út á íslensku. Aldrei fyrr hef ég lent í því að höfundur leggist gegn því að fá útgefna bók.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.