Chile, Santiago. Panflautur

Við erum aftur komin til Santiago, sitjum á flugvellinum á leið til Havana á Kúbu. Sem sagt síðasti dagur í Chile.

Í morgun opnaði ég augun klukkan 07:00 eftir ágætan svefn. Vaknaði auðvitað fyrst klukkan þrjú í nótt. Hlustaði á loftkælinguna og þefaði af myrkrinu. Í andvökunni varð mér hugsað til Huldars Breiðfjörð, kannski vegna alls koparsins hér í Chile.  Á kápu fyrstu bókar Huldars og sennilega hans bestu, Góðir Íslendingar, þrykktum við nefnilega koparplatta á svarthvíta mynd eftir RAX. Ég var alltaf frekar ánægður með þá kápu og líka bókina.

Ég man að ég fékk handritið að bókinni sent á föstudegi og tók það með mér heim. Ég var búinn að lofa Nóa, Söndru og Sölva að fara í sund í Kópavogi næsta morgun. Þetta var sumar og sunddagurinn var bæði bjartur og fagur. Ég tók söguna hans Huldars með í sund og lá á sólbekk og las handritið sem var prentað með ansi daufum nálarprentara. Þarna lá ég örugglega í tvo klukkutíma í sólinni og skellti hvað eftir annað upp úr við lesturinn. Mikið var ég glaður yfir þessu handriti. En nú átta ég mig á að það er alls ekki koparinn sem tengir Chile við Huldar. Það er auðvitað panflautan sem er eitt aðalhljóðfærið í hefðbundinni chileanskir músik.

IMG_6412

Í gær voru nefnilega tónleikar á hótelinu sem við dveljum á. 3 drengir með gítar, trommu og panflautu komu og fluttu chileanska tónlist undir kvöldmatnum. Ég var aldeilis feginn þegar þeir hættu að spila. Ég er ekki mikill aðdáandi þessarar panflautu tónlistar. Og nú kemur tengingin við Huldar.

Bókin Góðir Íslendingar sló rækilega í gegn. Og strax var farið að velta vöngum um hvað Huldar skrifaði næst. Og fljótlega kom í ljós að Huldar hafði viðkvæmt taugakerfi. Hann vissi hreinlega ekki hvernig hann ætti að fylgja sigrinum eftir. Hann flækti málin mjög. Bók tvö syndrómið í allri sinni dýrð. Hann hafði bara ekki hugmynd um hvað hann ætti að skrifa næst. Til að létta pressunnni ákvað hann að koma sér fyrir á Algarve í Portúgal. Burt frá góðum Íslendingum. Foreldrar hans höfðu, ef ég man söguna rétt, keypt bar á Algarveströndinni og látið þannig gamlan draum rætast um að reka strandbar. Huldar kom sér fyrir í íbúð í miðbæ Algarve og reyndi að finna efni í næstu bók. Svo óheppilega vildi til að fyrir utan íbúðina var lítið torg. Nokkrir Chileanskir eða Perúanskir tónlistarmenn, vopnaðir panflautum, höfðu tekið ástfóstri við þetta torg og spiluðu daglega langan lagalista með panflautusöngvum fyrir vegfarendur undir glugganum hjá Huldari.

Algarve var ekki sá draumastaður sem Huldar og foreldrar hans höfðu gert sér í hugarlund. Haustið eftir seldu foreldrar Huldars strandbarinn og fluttu aftur í Kópavoginn. Huldar kom ekki heim frá Algarve með nýja bók.

Það var löngu seinna sem Huldari tókst að klára bók, Múrinn. Um göngu hans í Kína eftir Kínamúrnum. Að nokkru leyti ágæt bók en kannski líka misheppnuð. Vandræði Huldars og bókarinnar í heild sinni endurspeglast kannski í því að Huldar stóð fastur á að bókin skyldi byrja á 9. kafla (eða eitthvað álíka). Eftir jólaveríð höfðum við á forlaginu ekki undan við að taka á móti fólki sem vildi skipta bókinni og fá eina sem byrjaði á kafla eitt.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.