St. Bart. Frjáls úr sósíalísku fangelsi

Loksins er ég frjáls aftur. Við sluppum frá Kúbu með fáar, grunnar skrámur. Kúba er ekki sá staður sem mig hafði dreymt um. Mig hafði lengi langað til Kúbu, til hinnar salsadansandi og syngjandi alþýðu, sem lét ekki Bandaríkin kúga sig. Ég sá fyrir mér götudansana við gítarleik úti á miðri götu. Glaðvært fólk í litríkum klæðum. Gömul reisuleg hús í herssilegum litum. Og gljáandi amerískir kaggar keyrðu malandi hjá.

Veruleikinn er annar. Það var gaman að kynnast Kúbu áður en eyjan sekkur í ferðamannahafið sem er verður sífellt stærra og dýpra. Á hverju ári fjölgar ferðamönnum sem leggja leið sína til Kúbu um 50%. Sérstaklega í Havana rennur þungt ferðamannafljót í gegnum götur hinnar svoköluðu Gömlu-Havana. Þar snýst lífið um ferðamennina, kúbanskar lundabúðir í hverju skoti. Maður kemst ekki spönn frá rassi án þess að fá tilboð um veitingahús, leigubíl, hestavagn. „Amigo, very good restaurant. Rice, meet, fish, beans, vegetables…“ „Amigo, taxi? Would you like to drive in my Buick?“…  Og svo er ekkert internet. Eða jú, maður getur keypt klukkutíma aðgang að interneti fyrir fimmtung af launum kúbansks læknis og klukkutíminn fer í að reyna að tengjast netinu.

Það orð sem kom oftast í huga minn á Kúbu var hnignun. Hnignun, hnignun, hnignun, sagði ég aftur og aftur því ég var ergilegur. Mér fannst ömurlegt að sjá byggingarnar, þessar stórfallegu byggingar í algjörri niðurníðslu. (Ekki ganga undir svalir í rigningu, sagði einn borgarbúinn við okkur. Svalirnar geta hunið.) Borgin er hræðilega skítug, úrgangur liggur um allar götur, lykt af rotnun svífur yfir og eiturgufur frá hinum öldruðu rússnesku og amerísku bílum fylla höfuðið. Þvílík reykjarsvæla.

Þessa 14 daga bjuggum við í því sem kallað er Casa Particulares. Ríkisvaldið hefur gefið nokkrum af borgurum landsins til að leigju út herbergi í hýbýlum sínum. Og það gerðum við. leigðum herbergi inni á fjölskyldu og það var góð reynsla. Maður fékk nokkra innsýn í líf fólks og gat spjallað við það um tilveruna á Kúbu. Nær allir voru kúbanirnir sammála um að á Kúbu vildi það vera og ekki annars staðar. Enginn vildi flytja frá Kúbu. Betrumbæturnar voru rétt handan við hornið. Castrobræðurnir voru vel liðnir. Hetjur. Fiedel var el padre. Faðirinn. Vandinn var bara að efnahagurinn var ekki góður. Og oft dálítið erfitt að skilja hvað stjórnvöld vildu eða ætluðu sér.

Það sem pirraði mig annars mest var hinn gífurlegi óballans. Þeir sem komast í tæri við ferðamann safna auði. maður borgar sem nemur 30-50 evrum fyrir nótt á herbergi. Laun læknis  eða kennara er um 30 evrur á mánuði. Máltíð á veitingahúsi kostar fyrir 4 manna fjölskyldu um það bil 40 evrur.  Þannig að aðeins þeir sem komast í tæri við ferðamenn eiga peninga og þeir þéna stórar summur miðað við ríkisstarfsmennina. Þetta er rugl.

En ég er sem sagt feginn að vera kominn til St. Bart. Mér er létt.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.