Í dag er 24. febrúar og ég hef smurt mig allan með moskító-olíu. Hér eru margar gráðugar og blóðþyrstar moskítóflugur. Í gær bitu þær mig í litlaputtann, hælinn og ofan á ristina. Ég sit mestan part dagsins úti á verönd í þægilegum útihita og horfi út á sjóinn. Skoða blómin og fuglana.
Í gær fór dagurinn að mestu í að reikna út royalties, höfundalaun. Og það er ærið verkefni að reikna út höfundalaun fyrir meira en 200 mismunandi bækur. Mér hefur tekist að búa til tölvuprógram sem sér um útreikinga en vandinn er að ég verð að lesa inn sölutölur fyrir hvern titil og meðalverð e-bóka. osfrv.
Ég vaknaði í nótt og lá vakandi í nokkra klukkutíma og hugsaði um hvað það væri erfitt að finna bílastæði í Róm. Einu sinni kom í heimsókn til mín ungur, ítalskur maður. Hann var rithöfundur. Honum fannst gífurlega gaman að ljúga. Hann sagði mér ótal sögur og ég vissi aldrei hvort þær væru sannar eða lognar. Það fékk maður aldrei að vita. Þetta var fyrir nokkrum árum. Hann sagði mér að uppáhaldsbíllinn sinn væri SAAB. Þá var SAAB-merkið sænskt. Hann hafði ekki eigast bíl fyrr en hann varð 34 ára. Dag einn, rétt eftir sinn 34ða afmælisdag, áskotnuðst honum gífurlegar fjárhæðir fyrir að skrifa alþjóðlega metsölubók. Bókin seldist út um allan heim og alls staðar varð bókin metsölubók. Síðar varð gerð kvikmynd eftir bókinni.
Þann fyrsta júní árið eftir að bókin hans kom út, hin mikla metsölubók, fékk hann uppgjör fyrir sölu á bókinni sinni. Og bankareikningurinn bólgnaði út og varð svo stútfullur að það flæddi yfir barmana. Á einu augabragði breyttist þessi viðkunnalegi ítalski maður úr fátækum rithöfundi í undrandi og glaðan milljónamæring.
Eftir að hafa skoðað bankabókina sína, ákvað hann að taka strætó út í SAAB-umboðið í Róm. Hann átti vel efni á leigubíl en hann gleymdi eitt augnablik að hann var ríkur. Því tók hann strætó eins og venjulega. Hann kom inn í SAAB umboði sem var í gífurlega stórri byggingu í einu af úthvefum Róm. Í sýningarsalnum stóðu sýnishorn bæði af SAAB bílum og VIGAN herþotum. Rithöfundurinn gekk um salinn og virti bílana fyrir sér. Settist undir stýri í sumum og tók síðan ákvörðun. Hann kallaði til sín sölumann og leiddi hann að kóngabláum, gljáandi SAAB-bíl sem stóð fremst í sýningarsalnum og sagði: “Ég ætla að fá einn SAAB … þennan…”
Hálftíma síðar var honum afhentir lyklar að SAAB bílnum og ók af stað í sínum kóngabláa bíl heim á leið. Hann var taugaóstyrkur enda óvanur að keyra. Umferðin var þung og óvægin og enginn sýndi þessum óvana bílstjóra minnstu miskunn. Hann bjó inn í miðri Róm. Efir langa mæðu tókst honum að fikra sig í gegnum umferðarnet Rómaborgar og keyrði inn götuna sína. Þegar hann var staddur fyrir utan heimili sitt losnaði bílastæði. Beint fyrir utan dyrnar hans. Hann ætlaði ekki að trúa sínum eigin augum og lagði bílnum að sjálfsögðu í lausa stæðið.
Nú gat hann virt fyrir sér kóngabláa SAAB-bílinn frá svölunum á íbúðinni sinni. Tímunum saman stóð hann úti á svölum og horfði niður á bílinn sem gljáði í sólskininu. Ef það komu gestir bauð hann þeim út í bílinn og svo sátu gestirnir og hann út í bílnum á besta hugsanlega bílastæði í Róm og hlustuðu saman á útvarpið. Oft tók hann rauðvínsflösku með, stundum smurði hann líka nesti sem hann bauð gestum sínum upp á. Á hraðamælinum gat maður séð að bíllinn var ekinn 18 km. Hann færði bílinn aldrei úr stæðinu. Bíllinn stóð enn fyrir framan íbúðina hans þegar við hittumst á Íslandi og þá voru liðin nokkur ár frá því að stóra metsölubókin hans kom út.
Ein athugasemd við “St. Barts. SAAB-bíll í Róm”