Ég les þessa dagana bók J.K. Rowling, Silkiormurinn. Mér verður títt hugsað til Rowling. Fyrir mörgum árum átti ég þess nefnilega kost að hitta hana, eiga fund með henni, eins og margir segja. Það var á þeim árum þegar mér fannst ég ekki hafa internationalt format. Ég var feiminn við sjálfan mig í útlendu umhverfi, sérstaklega ef ég þurfti að tala ensku. Mér fannst ég svo lélegur.
Dag einn kom sem sagt bréf í þykku, riffluðu umslagi með einhvers konar skjaldarmerki á bakhliðinni. Upphleyptu skjaldarmerki eins og sendiráðin nota. Ég sat við skrifborð mitt á Bræraborgarstígnum, einn á skrifstofunni og á fóninum var þessi líka fína músik. Skrifborðið var eins og alltaf, hlaðið pappírum, bókum, bréfklemmum og kaffibollum. (Ég vildi óska að ég hefði meiri reiðu á hlutunum.) Þetta fágaða bréf var í bunka sem kom inn um póstlúguna. Ég var alóvanur að fá svona fínar sendingar svo ég opnaði bréfið varlega og veiddi upp þykkt bréfspjald ritað með skáletri. “Kæri útgefandi, það væri rithöfundinum J.K. Rowling sannur heiður …” Já, Rowling vildi taka á móti útgefendum sínum á hóteli í London. Ég sendi afboð. Núna sé ég eftir því. Mig langar að tala við hana.
Og nú þegar ég hugsa um samtal við Rowling, á fínu hóteli í London, þá velti ég því fyrir mér hvert umræðuefnið ætti að vera. Það sem ég er forvitinn um er væntanlega ekki viðurkennt umræðuefni milli tveggja ókunnra einstaklinga sem hittast í opinberu boði.
Einu sinni hitt ég Lars Saaby Christensen, það var líka í opinberu boði. Ég hafði lesið Hálfbróðurinn og ég held að það sé ein af 10 bestu bókum sem ég hef lesið á ævinni. Í þessari móttöku (eins og slík boð heita) var hlaðborð í miðjum veislusalnum og yfir miðjum hlaðborðskrásunum stóð ég allt í einu augliti til auglitis við Lars Saaby. Ég ákvað að tala við höfundinn og til að verða mér ekki til skammar ákvað ég að hefja samtalið á þann hátt sem maður ávarpar fræga höfnda. Það var röng ákvörðun því samtal okkar varð aldrei skemmtilegt.