St. Barts. Þegar ég faldi fjársjóð

Þegar ég flaut um karabíska hafið í morgun og horfði niður í djúpin í gegnum sundgleraugun hugsaði ég með sjálfum mér að sennilega, inni á milli allra neðansjávarklettanna, lægi fjársjóður. Ég sá ótalmarga fiska í öllum regnbogans litum. Líka plastpoka, ómerkta plastpoka, það er að segja poka ekki merkta neinu sérstöku fyrirtæki eða verslun, sem flutu fyrir framan augun á mér fullir af engu nema vatni. Ég hafði hálft í hvoru séð fyrir mér að á sjávarbotninum lægi kista, hálfgrafinn niður í sandbotninn, full af gulli og gimsteinum. Kistuna fann ég ekki í þetta skiptið.

Á floti í karabíska hafinu, hugsandi um fjársjóði, rifjaðist upp fyrir mér að sjálfur hafði ég grafið niður fjársjóð. Fjársjóð sem öll börn yrðu glöð að finna. Ég hafði eiginlega alveg gleymt þessu og þó hafði ég, sem 10 ára drengur, lofað að ég skyldi aldrei láta þetta falla í gleymsku. Á þeim árum var ég alltaf með fullar hendur fjár. Ég, hinn ungi viðskiptadrengur,  bar út blöð og seldi blöð, bæði Moggann, Þjóðviljann og Vísi. Og ég átti svo mikla peninga að ég vissi ekki aura minna tal.

Sem barn var ég stórkostlegur aðdáandi Enid Blydon, barnabókahöfundarins. Hún hafði skrifað nokkra bókaflokka sem voru þýddir á íslensku, Dularfullu bækurnar, Fimm bækurnar og Ævintýrabækurnar. Ég gleypti bækurnar í mig. Ævintýrabækurnar voru uppáhaldsbækurnar mínar, ég las þær aftur og aftur. Kvöld eftir kvöld. Eitt kvöldið, eftir lestur einnar Blydon bókarinnar ákvað ég – inspireraður af sögu Blydon –  að ég skyldi sjálfur búa til fjársjóð og grafa hann niður. Auk þess skyldi ég teikna fjársjóðskort sem lýsti leiðinni að fjársjóðnum. Ég sá fyrir mér börn, mörgum árum seinna, finna fjársjóðskortið og grafa upp fjársjóðinn. Ég væri þá orðinn gamall maður.

Pabbi minn átti  stærðar vindlakassa, og hann notaði ég sem fjársjóðskistu. Ég fór út í sjoppu skipti peningaseðlum í gullmynt (ég held að það hafi verið 2 kr. mynt) og keypti alls konar nammi, nammi sem mundi örugglega gleðja börn eftir 30 ár (ég hugsaði ekkert um rotnun og verðbólgu eða annað rýrnandi). Það eina sem ég sá fyrir mér voru hamingjusöm börn sem horfðu opinmynt á gullpeningana og sælgætið. Þau yrðu sæl með besta sælgæti í heimi. Og gull. Allt þetta, gull og nammi, setti ég í vindlakassann, lokaði honum vandlega með límbandi og gekk niður í óbyggt svæði (sem nú heitir Lágmúli) með skóflu í annarri hendi og vindlakassan í hinni.

Ég gróf kassann niður. Langt niður í jörðina. Það tók mig marga klukkutíma að grafa þessa djúpu holu.Það var komið kvöld þegar ég mokaði  mold yfir og stakk járnpinna niður til að merkja staðinn. Svo taldi ég skrefin frá fjársjóðsstaðnum og upp á gangstétt og skrifaði skrefafjöldan niður. Alla leið heim, taldi ég skrefin og skráði í hvaða átt ég gekk. Allar þessar upplýsingar setti ég á blað með penna.

Efst á blaðinu stóð stórum stöfum FJÁRSJÓÐUR. Ég hafði vandað mig mjög við að gera fjársjóðskortið sem flottast. Fyrir neðan yfirskriftina var lýsing hvernig maður finndi fjársjóðinn. Öll skrefin. 80 skref niður Álftamýri frá húsi númer 41. Beygja til vinstri hjá Borgarapóteki og ganga 803 skref að blokkinni, Álftamýri 2-6… Blaðinu með lýsingunni pakkaði ég inn í plast og setti ofan í tóma tómatsósuflösku. Skrúfaði lokið á.

Ég velti lengi fyrir mér hvar ég skildi koma flöskunni með fjársjóðskortinu fyrir. Eftir langa mæðu ákvað ég að ganga upp í Kringlumýri, þar voru tjarnir og í eina þeirra kastaði ég flöskunni. Ég stóð upp á hól og horfði á eftir flöskunni hverfa niður í moldargruggugt vatnið. Ég er sólóisti, og hef alltaf verið, og í þessu stóð ég einn.

Þegar Bræðurnir Ormsson byggðu hús í Lágmúlanum – ég keyrði oft framhjá á byggingartímanum – varð mér hugsað til fjársjóðarins og hvort gröfustjórinn sem gróf fyrir grunninum hefði fundið vindlakassann með öllu góssinu eða hvort einhver börn hefðu náð að grafa fjársjóðinn upp áður en byggingarframkvæmdirnar hófust.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.