St. Barts. Afmælisdagur

Í gær Mourinho (atvinnulaus fótboltaþjálfari), í nótt Claudio Raineri (þjálfari fótboltaliðs Leicester). Í fyrradag Frank Lampart (fótboltamaður). Ég veit satt að segja hvernig ég á að túlka að mig dreymir þessa menn. Sus segir að það sé vegna þess að “fodbold fylder så meget i dit liv.” En þetta er rangtúlkun. Ég hugsa ekki svo mikið um fótbolta á ferðalaginu.  Mourinho, var leiðsögumaður minn í skíðaferðalagi, og var ægilega óánægður með sjálfan sig. Raineri (þess ber að geta hér, fyrir þá sem ekki vita neitt um fótbolta, að lið hans Leicester er smáklúbbur sem situr óvænt á toppi efstu deildar) var aftur á móti ferðafélagi minn í leigubíl (við sátum hlið við hlið í aftursæti leigubíls sem keyrði á æðisgengnum hraða í gegnum mannmargar götur). Hann sagði mér, að þvert á það sem fólk héldi, væri þetta ár ekki hans besta. Hann hefði ungur orðið kóngur. Hann var mjög glaður og malaði stanslaust. Ef einhver hefur frambærlega túlkun á þessum draumum vil ég gjarnan heyra.

Í dag hefði pabbi minn orðið 93 ára. Eftir að pabbi dó fyrir rúmum tveimur árum hefur mig dreymt hann næstum hverja einustu nótt. Í tilefni afmælisins er ég búinn að panta afmæliskaffi í dag. Númi bakar pönnukökur og ég helli upp á eðalkaffi. Ég veit að svona hefði pabbi óskað að ég héldi upp á afmælisdaginn.  Þannig hélt hann alltaf upp á afmælisdag mömmu, eftir að hún dó, með að bjóða systur minni á veitingahús og panta kaffi og pönnukökur.

Ég hugsa stundum um æskuheimili mitt í Álftamýri, sem nú hefur verið selt til ókunnugrar fjölskyldu, og hefur víst ráðist í töluverðar betrumbætur á húsinu. Ég hef ekki komið í Álftamýrina eftir að húsið var selt en mig langar að sjá húsið aftur. Kannski kíki ég í Álftamýrina í maí.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.