Monumental Valley. Sálufélagi

8. mars í dag. Sus á afmæli. Afmælisgjöfin ekki af verri endanum. Sæng með fiðri úr sjálfri Hergilsey. Það var vaknað snemma, enda sofnaði ég klukkan 20:00 í gær! Stóra gljúfur eða Grand Canyon, var aldeilis glæsilegt í morgunbirtunni. Sólin skein á klettaveggina sem aftur vörpuðu skuggamyndum sínum inn í gljúfrið. Enn var haldið af stað út í eyðimörkina.

IMG_6670

Áður en ég held lengra tek ég fram  að ég held að ég eigi sálfufélaga, sem ég þó hef aldrei hitt. Ég las nefnilega langa grein eftir Karl Ove Knausgård í gær um  breska heilaskurðlækninn Henry Marsh. Henry Marsh er orðinn vel þekktur fyrir læknastörf sín, bæði vegna þess hve fær læknir hann er, en ekki síður fyrir að sinna hinum fátæku og þurfandi. Hann ferðast víða bæði til að kenna fátækum þjóðum tækni við heilalækningar og ekki síður til að lækna þá sem fá heilaæxli í fátækum löndum. Henry Marsh hefur líka skrifað þekkta bók sem heitir DO NO HARM um störf hans og siðferðlegar hliðar læknastarfsins. Norski rithöfundurinn Knausgård, sem nú er orðinn heimskunnur fyrir 6 binda ævisögu sína MIN KAMP, fékk leyfi til að hitta Marsh niður í Albaníu þar sem Henry var að störfum þá vikuna.

Það eru ekki margir sem ég get sagt að séu sálufélagar mínir. Mér finnst ég líkjast mömmu minni. Við vorum kannski ekki sálufélagar en það er svo margt í afstöðu hennar sem ég þekki svo vel hjá sjálfum mér. Hún tók ekki hlutina svo alvarlega. Ef henni urðu á mistök í einhverju léttvægu hló hún bara. Ég man að hún spilaði stundum á orgel við skírnir í kirkjunni hjá pabba. Oft sat ég við hliðina á henni á meðan hún spilaði á orgelið. Ekki ósjaldan sló hún feilnótu, mér dauðbrá alltaf og leit niður til kirkjugestanna, en hún kippti sér ekki upp við það, blikkaði mig bara og flissaði. Með árunum hef ég lært að taka mistökum mínum ekki svo þungt. Ég hrasa oft. Og nú hef ég þróað óþol gagnvart þeim sem eru í sífellu að benda á fullkomleika sinn og um leið duglegir við að benda á mistök annarra. Nú orðið segi ég, að ég trúi á hina hrasandi manneskju. Hina hrasandi mannesku sem horfir fram á við (ekki bara manneskju sem er síhrasandi). Ég trúi ekki lengur á kollektív. Ég trúi ekki lengur á samyrkju, samvinnu, sameign. Ég trúi á hina hrasandi manneskju.

Ég las hluta af ævisögu Knausgård fyrir nokkrum árum og mér fannst eins og hann væri að skrifa um mig og mitt líf. Ég var uppnuminn. Við höfum sömu áhugamál, hlustum á sömu músik, spilum fótbolta, erum að mörgu leyti eins innréttaðir… við vorum fannst mér sálufélagar. Mér fannst þetta stómerkilegt. Skömmu eftir að ég hafði lesið sumar af bókum hans fór ég að hlusta á samtal við hann á bókmenntahátíðinni í Lousiana í Danmörku. Knausgård náði  að heilla mig. Svo segir stjórnandi viðtalsins skyndilega við Knausgård: “Veistu hvað, mér finnst eins og þú sért að skrifa um mig í ævisögu þinni.” Knausgård náði ekki einu sinni að svara áður en miðaldra karlmaður út í sal réttir upp hönd og biður um orðið: “Nei, þetta er ekki rétt,” segir maðurinn. “Hann er ekki að skrifa um þig, hann er að skrifa um mig!” Nú varð ég hissa. Hann var að skrifa um mig og sig og engan annan.

En svo aftur að þessari grein sem Knausgård skrifaði um heilaskurðlækninn. Í miðri greininni segir Knausgård frá því að nokkur hópur af spítalanum fór út að borða, kvöldið eftir að þeir Marsh höfðu hist. Í hópnum voru samstarfsmenn Marsh frá spítalanum og Knausgård. Marsh leiddi samtöl kvöldsins og var allstaðar heima, bæði í pólitík, heimspeki, læknavísindum og mannkynssögu. Hann skautaði af fimi milli samtalsefna og virtist geta talað um margt. Knausgård lýsir sjálfum sér sem þöglum manni og var feginn að einhver sá um að bera uppi samtöl kvöldsins. Hann situr þögull og hlustar. En getur ekki annað en dást að samtalsfimi skurðlæknisins, en bendir svo á að hann furði sig á því, að þrátt fyrir alla sína frægð og sitt góða orðspor virðist læknirinn alltaf leiða samtölin að lokum inn í farveg sem lýsi hvað hann sjálfur er góður maður. Hann teiknar alltaf að lokum upp fallega mynd af sjálfum sér og á þessu furðaði  Knausgård sig. Afhverju þurfti þessi dásamaði maður alltaf að lokum að teikna upp þessa fögru mynd af sér.  Auðvitað þekkti Knausgård þessa sömu tilhneigingu hjá sjálfum sér en hann sér sjálfan sig sem ófullkominn mann. Var ekki nóg að vera heimsþekktur og virtur og dásamaður. Þurfti hann líka að benda á það?

Ég veit svo sem ekki hvað ég er að fara. Langaði bara að skrifa um þessa grein hans Knausgård. Og í kvöld ætla ég að lesa nýja bók höfundarins.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.