USA, Moab. Kalóríur og kíló

Frá því snemma í morgun fram til eftirmiðdags höfum verið á ferðinni um þjóðgarðinn Arches í nágrenni Hoab. Við höfum gengið marga tugi kílómetra í þessari heillandi náttúru. Kannski eins gott að maður hreyfi sig hér í USA ef maður vill ekki verða akfeitur.

Matarskammtar hér eru með ólíkindum stórir og hér er allt sykrað eða ekstra feitt. Það kemur manni ekki á óvart að stór hluti Bandarísku þjóðarinnar er í feitari kantinum. Ég held mér enn í kringum 85 kg  sem mér finnst OK. Ég létti mig um 2 kg þegar ég fer að spila fótbolta aftur. Ég hef svo sem ekki átt í neinum sérstökum erfiðleikum með aukakíló.

Mamma barðist aftur á móti hatrammri baráttu við að verða ekki of feit. Hún vigtaði sig dag hvern þegar hún kom úr baði. Hún steig ofurvarlega á vigtina, eins og hún yrði léttari við það að læðast upp á vogina. Ég mátti ekki kíkja. En nálin fór iðulega yfir hennar óskamál sá ég, þrátt fyrir að hún stillti vigitina langt fyrir neðan 0 kg í upphafsstöðu. Ég man ekki eftir mömmu öðruvísi en í einhverskonar megrun sem hún svindlaði á mörgum sinnum á dag. Lítill kökubiti var of freistandi með kaffinu. Einn sykurmoli í kaffið. Aðeins að smakka á rjómanum… Ef maður sagði: „Hvað ætlarðu að fá sykurmola með kaffinu?“
„Ha, nei þetta var bara hálfur…“ og svo flissaði hún.

Ég man að hún keypti megrunarkaramellur, marga kassa,  sem áttu að lækna veikleika hennar fyrir hinu sæta. En ég er hræddur um að  megrunarkaramellurnar hafi bara orðið einskonar ábót, kökubitinn rann niður eftir sem áður  og sykurmolinn… Eitt sinn bað hún mig að teikna mynd af akfeitri konu og hengja á ísskápinn. Það átti að minna hana á að hún skyldi ekki borða. En það virkaði svo sem ekki heldur.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.