USA, Moab. Er nauðsynlegt að skjóta þá?

Það er komið kvöld. Ég sit hér í litlu stofunni á sumarhúsinu sem við höfum leigt og hlusta á hitablásarann spúa heitu lofti inn í hálfkalt rýmið. Þótt hér sé gott íslenskt sumarveður á daginn, sólskin og logn, (veður sem kallar fram frelsistilfinningu hjá mér), þá er hér kalt á kvöldin. Númi og Daf eru lagstir upp í rúm. Daf hlustar á hljóðbók (Harry Potter) en Númi sér eitthvað á Netflix. Sus situr upp í rúmi og les og skipuleggur ferð morgundagsins (vestur til Kanab).

IMG_6742

Þetta er þriðja nóttin hér í sumarhúsinu, alla dagana höfum við verið í náttúruskoðunarham og þrammað um þjóðgarða. Eftir skoðunarferðir spilum við tennis á tennisvellinum hér.

Á ferðum okkar í dag viðraði ég þá hugmynd sem ég fékk í nótt  um að beita nýjum aðferðum í baráttunni gegn strangtrúarfólki. Ég fékk að vísu dræmar undirtektir en ég held að það hafi bara verið vegna þess að mér tókst ekki að setja hugmyndina alveg rétt fram.

Ég hef fyllst vonleysi þegar ég les fréttir af stríðsmönnum talibana, Ríkis íslams, al-Queda og um allt þetta reiða og lífsneitandi fólk, heimsku þess og grimmd. Líf þeirra gengur út á að ræna gleðinni úr lífinu, sínu eigin og annarra. Allt gengur út á tómt harðlífi. Enginn leikur, engin gleði. Og ég spyr: gagnar eitthvað að skjóta þetta fólk? Er nauðsynlegt að skjóta þá? eins og Bubbi segir. Það virðist bara magna hatrið og vitleysuna. Ég legg til að í stað þess að henda sprengjum og skjóta verði þetta harðlífistrúarfólk tekið til fanga og þvingað til að leika sér á baðströnd í 14 daga. Baðströndin gæti verið á ítalíu, Brasilíu eða Ástralíu. Á góðum sumardegi  er allt iðandi af lífi á baðströndinni, músik og dans, strandfótbolti, blak, strandtennis, sund, köfun, seglbretti…. fjölskyldur með nestispakkana sína…  kærustupör leiðast og kela. Aðferðin: strangtrúarmenn eru færðir úr búning sínum (mussum og kyrtlum….) og settir á sundskýlu. (Trúarfléttur í hári, trúarhattar fjalægðir og trúarskegg er klippt). Og svo hefst leikjadagskrá frá morgni til kvölds, með gleði, keppni og söng. Eftir 14 daga er ekki lengur nauðsynlegt að skjóta og sprengja heldur hafa trúarfasistarnir, loksins slappað af og komist að því að það er í lagi að njóta lífsins og hætta að abbast upp á aðra sem njóta þess.

Mér skylst að klámmyndadrottningin og þingkonan á ítalska þinginu Chiccolina (eða eitthvað í þá áttina) hafi viðrað skoðun sem gengur að sumu leiti í sömu átt. Ég veit ekki hvort þetta hafi veri stefnumálið sem kom henni á þing. En hennar tillaga var að bjóða harðlífistrúarmönnum að dvelja með henni í sólarhring. Hún var þeirrar skoðunnar að þetta væru upp til hópa kynferðislega sveltir menn og því svona hengdir upp á þráð. Lausnin var að koma í faðm hennar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.