Kanab, USA. Hjartaprúðar manneskjur

Við búum nú í risastóru húsi í úthverfi smábæjarins Kanab í Utha fylki. Eigendurnir eru ung barnlaus hjón hafa hreiðrað um sig í kjallaranum en leigja 4 herbergi í þessu stóra húsi, sem er á tveimur hæðum (+kjallari). Við sjáum eigendurna eiginlega aldrei, en við gestirnir (við sem leigjum herbergin 4) hittumst reglulega í sameiginlegu eldhúsi. Þegar ég vakna á morgnana og læðist fram til að hella upp á kaffi stendur Greg iðulega og inni í eldhúsinu og er eitthvað að vesenast (oft er hann búinn að hella upp á kaffi sem hann deilir með okkur). Greg er frá Milwaukee og er hér á ferð ásamt konu sinni Mary (hún sefur lengur en Greg). Þau eru bæði kennarar á eftirlaunum og eru miklir göngugarpar. Í nágrenni Kanab eru nefnilega stórir þjóðgarðar með stórfínum gönguleiðum. Og þar ganga Greg og Mary. Það hefur verið gaman að hitta þau, kynnast þeim og spjalla við þau. Bæði eru þau mjög hjartaprúðar manneskjur.  Þau hafa þrjú eftirlætis umræðuefni. Danmörk (þar voru þau við nám í eitt ár fyrir 40 árum), Ísland (sem þau heilluðust svo mjög af fyrir nokkrum árum á ferðalagi) og bækur (þar sem þau eru bæði miklir lestrarhestar). Auk þess er upplagt að ræða pólitík, með forkostningarnar glymjandi yfir sér.

IMG_6796

Fyrst ég er byrjaður að tala um  húsið sem við búum í, vil ég minnast á, að hér eru á stofuveggjum eru tugir af afríkönskum grímum, hvað kallar maður þetta, afrísk list? Þessar grímur eru upp um alla veggi. Það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég virti fyrir mér veggina var gamalt plötualbúm sem skreytti, (og kannski verndaði) eina af plötum Emerson, Lake og Palmer. Plötu sem ég tengi alltaf við Pál Valsson. Þetta plötualbúm var þakið gullrömmum án mynda (ef ég man rétt). Ég var sannarlega aðdáandi hljómsveitarinnar án þess þó að hengja upp plakat af hljómsveitarmeðlimunum upp á vegg í herberginu mínu. Stundum fylgdi plakat af orgelleikaranum Keith Emerson með stúlknablaðinu Bravó. Þá var hann ekki við orgelið, heldur á Harley Davidson móthjólinu sínu, klæddur svörtum leðurgalla.

MI0001146095

Mér var hugsað til þess (af því það var gaman að hitta Greg og Mary) að þegar maður er á ferð í flugvél og situr einn við hlið ókunnugrar manneskju er það upp og ofan hvort maður heilsar upp á sessunaut sinn. Oftast situr maður í sínum heimi og er ekki mikið að velta fyrir sér aðilanum sem situr í sætinu við hliðina. En stundum opnar maður dyr, hefur samtal og það kemur fyrir að innandyra er glæsilegt um að litast. Ég sat til dæmis við hlið amerísks manns á leið minni frá Puerto Rico til Las Vegas og það var eftirminnilegt samtal við þann ágæta mann. Sennilega ætti maður oftar að gefa fólki sjéns á að opna dyr sínar og ekki væri vitlaust að banka oftar upp á.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.