USA, Palm Springs. Gömul átveisla

Eftir meira en 700 km keyrslu í gegnum eyðimörkina erum við komin til Palm Springs í Kaliforníu. Eftir langa ökuferð yfir sand og auðn sprettur Palm Springs skyndilega upp úr eyðimörkinni, algjörleg upp úr þurru. Ég er þreyttur, það syngur í hausnum á mér og ég veit ekkert um Palm Springs. Ég hef það á tilfinningunni að eiginkona JR í Dallas, drykkjusjúka konan sem ég man ekki hvað heitir, hafi komið frá Palm Springs.

Þetta er staður sem hefur enga rökrétta ástæðu fyrir tilvist sinni. Hér er ekkert sem réttlætir tilvist bæjar með 50.000 íbúum, því hér um kring er ekkert annað en sandur undir 340 sólskinsdögum á ári.  Það er vegna sólskinsdaganna sem efnaðari íbúar Los Angeles, sem ekki er langt undan, hafa sótt hingað á flótta frá sínum eigin bæ. Byggja hús og sundlaugar við húsin og liggja svo í sólinni við sundlaugar sínar.

Hingað komu Elvis Presley og Frank Sinatra þegar þeir voru efst á sínum frægðartindi og áttu sinn eigin samastað mitt í sandauðninni, hús með sundlaug,  og margar stjörnur fylgdu í kjölfarið. Eftir að þeir söngfuglar tveir féllu frá fylltist bærinn af amerískum eftirlaunaþegum með áhuga á golfi (hér eru 11 golfvellir). En nú á okkar dögum hafa stjörnur frá Hollywood endurfundið þennan bæ (hér eru retrósundlaugar í laginu eins og tár við sum húsin og það heillar stjörnurnar.) Í bænum er búð við búð við veitingastað við veitingastað við kaffihús og nú gengur frægðarfólkið frá Los Angels um bæinn á bak við sólgleraugu og undir derhúfu með smáhunda í annarri hendi og með vatnsflösku í hinni.

Ég er feginn að húsið sem við búum í hefur gott eldhús. Þetta er stórt hús með mörgum herbergjum, eigandinn virðist vera einhver stofnun (ég held að það sé banki sem á húsið), eignin er til sölu og hér eru nánast engin húsgögn innandyra. Þó eru hér rúm til að sofa í og borð í borðstofu til að borða við. Líka stólar. Svo við þurfum sem betur fer ekki að borða á veitingastað. Ég er orðinn mjög fráhverfur veitingastöðum, sérstaklega karakterlausum stöðum með lítinn metnað fyrir matargerð.

Mér kemur í huga  þegar ég fór í fyrsta og eina skiptið í lífi mínu á veitingastaðinn Einar Ben. sem þá var við Ingólfstorg (ég veit ekki hvort staðurinn lifir lengur). Ég ætla ekki að rifja upp allar aðstæður, en sumir höfundar míns gamla forlags langaði mikið til að forlagið héldi þeim eins konar veislu. Þeim fannst þeir einir og yfirgefnir í sköpun sinni og óskuðu eindregið að forlagið stæði fyrir samverustund. Forlagið var vant að halda stórar veislur þar sem meirihluti menningarelítu Reykjavíkur mætti eina kvöldstund í partýstuði. En á þessum árum var ég ekkert fyrir samverustundir. Ég sótti í að vera einn, ég óskaði ekki eftir félagsskap margra í einu, ég óskaði eftir að fá að keyra mitt sóló í friði.

Jón Karl, minn frábæri samstarfsmaður til margra ára, sá að ég var ekki á réttri leið, og lagði til að í stað þess að halda stóra veislu mundum við bjóða höfundum okkar og helstu aðstoðarmönnum til lítillar veislu á forlaginu, sem mundi enda á veitingastað. Ég sá auðvitað villur míns vegar og samþykkti enn eina af mörgum góðum tillögum Jóns Karls. Veislan fór vel fram á höfuðstöðvum forlagins og þeir sem mættu til veislunnar voru glaðir og virtust skemmta sér vel. Enda lausir úr sinni sköpunarprísund.

Þegar líða tók á kvöld var haldið af stað til veitingastaðarins Einars Ben sem þá var nokkuð heitur staður. Þar settumst við öll við eitt borð og byrjuðum að skoða matseðilinn, svona eins og maður gerir þegar maður kemur á veitingastað. Engum leiddist. Í miðjum matseðilsspekúlasjónunum lýsti einn af gestum forlagsins því að hann (gestur forlagins) hafði einu sinni áður komið á þennan veitingastað með þáverandi maka sínum. Þau hjónin höfðu, og það er mér svo minnisstætt, stúderað matseðil veitingastaðarins á netinu áður en þau héldu af stað út að borða. Þau höfðu bæði valið sér rétt á online-matseðlinum sem þau ætluðu að gæða sér á þetta kvöld. Þegar þau svo settust inn á veitingastaðinn (Einar Ben.) og fengu prentaðan matseðil í hendurnar sáu þau að matseðillinn hafði verið endurnýjaður (en ekki on-line matseðillinn) svo að réttirnir sem þau höfðu hlakkað til að gæða sér á voru ekki lengur í boði. Í hneykslan sinni yfir að veitingastaðurinn leyfði sér að birta úreltan matseðil á netinu stóðu þau bæði á fætur og gengu út án þess að neyta matar. Ég held að þau hafi bæði gengið heim á leið og borðað örbylgjupopp yfir gamalli kvikmynd, mynd Marcos Ferreri, Átveislan mikla (La Grande bouffe).

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.