USA, Los Angeles.Við hötum þau enn

Ég tók skref í átt til mikillar frægðar  í dag. Við áttum fund með einum af virtasta og stærsta SitCom (situation comedy) handritshöfundum Bandaríkjanna. Gúrúinn í faginu, Fred Rubin. Það var svo sannarlega lífgefandi fundur. Fred býr ásamt konu sinni, Merlyn, í nágrenni Werner Bros. kvikmyndaveranna (enda hefur hann unnið þar í 8 ár). Þau höfðu boðið okkur í heimsókn á heimili sitt klukkan 16:30.

IMG_6861 (1)

Allar athafnir okkar í dag hafa tekið mið af þessari tímasetningu. 16:30. Daginn byrjuðum við „downtown“ þar sem hin fræga músikhöll Los Angels, Walt Disney Hall  og Art Nouvo húsið Bradbury Building eru. Frábærlega flottar byggingar. Síðan vöfruðum við um bæinn, kíktum í bókabúðir, kaffibari, fataverslanir, vínbúðir (þar sem við keyptum íslenskt brennivín fyrir Fred). Settumst inn á hamborgarabúllu og pöntuðum hamborgara og sheik. Fyrir utan brennivínið keypti ég eina bók. „Raddherminn“ eftir hinn svartsýna, austuríska rithöfund Thomas Bernhard.

HOTEL WALDHAUS (Thomas Bernhard)
Við vorum mjög óheppin með veðrið og borðnautar okkar voru að öllu leyti viðurstyggilegir. Þeim tókst meira að segja að eyðileggja Nietsche fyrir okkur. Þrátt fyrir að þau hafi beðið bana í bílslysi og eru jörðuð í kirkjugarðinum í Sils, hötum við þau enn. 

Nákvæmlega 16:38 hringdum við á bjöllunni á húsi Freds. Það er erfitt að tímasetja lengd bílferða hér í LA. Vegalengdirnar eru miklar og umferðin ægileg. Við vorum því heppin að ná að vera við hús Freds næstum því á réttum tíma. Húsið er látlaust. Hjónin tóku vel á móti okkur og við settumst út á verönd og fengum kaffi og kex. Bæði Fred  og Merlyn eru gyðingar. Ég veit ekki hvað það er með gyðinga, en meðal þeirra eru svo margir óvenju vel gefnir einstaklingar. Fred er einn þeirra. Gáfurnar lýsa af honum.

Ég ætla ekki að upplýsa efni fundarins en Fred er með hjartað á réttum stað. Hann er maðurinn.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.