USA, Los Angeles. Cassius Clay

Það voru ekki góðar fréttir sem ég vaknaði við í morgun. Enn ein hryðjuverkaárás Ríkis islams. Þetta minnti mig á söguna af Muhammad Ali (Cassius Clay), boxaranum mikla. Hann tók upp hið múslimska nafn Muhammad Ali árið 1965 þá 23 ára gamall. Hann vakti auðvitað fyrst og fremst athygli fyrir hnefaleika en hann var líka ötull baráttumaður gegn stíðinu í Víetnam. Hann neitaði að taka þátt í stríðinu með orðunum: „Ég er múslimi, við drepum ekki fólk.“

Mestan part dags í dag höfum við verið á Getty listasafninu, sem liggur hér uppi í hæðunum yfir LA. Það hefur glatt mig mjög. Byggingin er stórkostleg, stórfalleg og með útsýni yfir borgina. Þetta er ríkasta safn Bandaríkjanna og allt er fallegt þar, byggingin sjálf, garðarnir í kring, útsýnið og sýningarnar.  Við skoðuðum sýningu ljósmyndarans Robert Mapplethorpe, sem var skemmtileg en ekki eftirminnileg. Svo gengum við í gegnum safn JP Gettys á 19. og 20. aldar myndlist. Það fannst mér gott. Monét, Renoir, van Gogh, Millet, Turner. Ég hefði getað verið þarna allan daginn. En nú erum við fjögur á ferðalagi svo það er ekki hægt að spila sóló. Númi og Davíð eru ekki hinir miklu safnamenn. Þeir sýna þolinmæði og virðingu fyrir áhuga mínum á safninu en mér finnst ég ekki geta leyft mér að draga veruna þar mjög á langinn. Sus er líka mjög áhugasöm en af tillitsemi við ungviðið vorum við skemur en ég hefði viljað vera.

IMG_6888 (1)

Annars hefur það vakið áhyggjur mínar að mér finnst bilið milli sálar og penna hafa aukist hjá mér eftir að ég setti það á stefnuskrá mína að minnka bilið. En ég kenni Los Angeles um það. Við höfum þeyst um bæinn til að ná sem mestu. Það er ekki á hverjum degi sem maður  er í LA. Því hef ég komið heim um kvöld eftir langan dag og hef hreinlega ekki verið í stuði til að skrifa. Ég hef verið þreyttur og ekki sérlega andaktugur. En mér finnst samt ég verði að gera grein fyrir mér eftir dag í útlöndum, fjarri öllum og engum til gagns.

IMG_6885

Á morgun keyrum við til kalíforníska bæjarins Ojai, sem er lítill bær vestur af Los Angeles. Þar verður væntanlega meiri ró. Við eigum stefnumót við ágætan bókmenntaagent sem við þekkjum, Merleen Seegers, og það verður gaman að hitta hana.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.