USA, Ojai. Einn í appelsínulundi

Þegar ég settist upp  á garðvegg fyrir utan litla kaffibúð og fékk mér fyrsta sopann af kaffinu fann ég hvað mér var létt. Ég var kominn burt frá stórborginni, Los Angeles sem er stórfengleg borg, og svolítið upp í fjöllin þar sem smábærinn Ojai hvílir. Hér búa 7000 manns, og hér eru appelsínulundir allt um kring. Íbúarnir hafa tekið sig saman um að banna allar verslunarkeðjur innan bæjarmarkanna (enginn Starbucks, enginn BurgerKing…). Hér skal stutt við framtakssama heimamenn sem vilja selja kaffi eða hamborgara eða eitthvað annað. Þar sem ég sat fyrir utan kaffibúðina með kaffibollann minn fann ég bókstaflega að það var oki af mér létt. Hljóðstyrkurinn í umhverfinu hafði lækkað um mörg desibel, lyktin hafði breyst frá bensínfnyk til appelsínuilms. Til að kóróna þetta hafði ég fengið afar uppörvandi tölvupóst í morgun. Mér var létt um hjarta. Mér finnst ég léttur eins og fjöður.

IMG_6893
Götumynd frá smábænum Ojai

Nú sit ég einn með kaffibolla á verönd fyrir utan lítið hús sem við höfum leigt í tvær nætur, rétt fyrir utan bæinn.  Sólin skín en ég sit í skugga tránna. Við erum á lítilli hæð í miðjum appelsínulundi og ég horfi yfir þúsundir appelsínutrjáa. Sum bera sinn fallega appelsínugula ávöxt en önnur eru bara eins græn og hægt er að vera. Sus og strákarnir fóru inn í bæinn til að kaupa í kvöldmatinn. Svo ég er einn. Það er líka undarlegt að vera einn. Við erum alltaf fjögur. Í 24 tíma hvern dag víkjum við varla hvert frá öðru. En það er stórkostlegt að vera einn hér í þögninni.

Venjulega þrái ég músik, venjulega syngur í hausnum á mér eitthvað trommusóló, bassalína eða söngrödd. En nú get ég ekki hugsað mér að spilla þessari þögn, ekki einu sinni með yndislegri músik.

Eigendur hússins sem við leigjum búa hérna 50 metrum ofar (þau eru ekki heima núna) í gríðarlega stóru húsi. Ég veit ekki hver þau eru og hef enn ekki hitt þau. En ég tek mynd af húsinu  og set hér á síðuna.

IMG_6900
Risahús leigusala okkar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.