USA, Cambria. Fánastöngin

Í dag höfum við keyrt upp vesturströnd Kaliforníu. Í gegnum hin frægu vínræktunarhéruð. Allt frá Ojai og alla leið hingað til Camriu. Í rauninni erum við á söguslóðum kvikmyndarinnar Sideways sem var fræg fyrir nokkrum árum. Ég byrjaði að horfa á hana áðan en fann strax að myndin var orðin úrelt. Of gömul og sagði mér ekkert lengur. Eins og mér fannst hún skemmtileg þegar ég sá hana í Regnboganum árið 2005.

IMG_6942

Það er ekki mörg merki um að í dag sé föstudagurinn langi hér í USA. Bandaríkjamenn virðast ekki taka daginn sérstaklega alvarlega, búðir eru opnar og veitingastaðir og fólk virðist vinna eðlilegan vinnudag. Að visu er víða flaggað í hálfa stöng og ég geri ráð fyrir því að það sé vegna pínu Guðssonarins, varla er það sé vegna sigurgöngu Trumps þótt það væri við hæfi.

Ég hef aldrei verið mikill fánamaður og hef sjálfur aldrei dregið fána að hún, hvorki hinn íslenska né annan fána sem gefur til kynna fyrir hvern hjarta manns slær. Ég man að ég hitti  ekta fánamann þegar ég var eitt sinn í íbúðarleit.  Ég hafði verið á hálfgerðum hrakhólum, búið víða í Reykjavík. Meðal annars með Eirík Guðmundssyni á Hagamel, í íbúð Halldóru Geirharðsdóttur í Bergstaðarstræti, íbúð Adolfs Friðrikssonar á Lindargötu, fyrir utan þær nætur sem ég svaf á  skrifstofunni á Bræðraborgarstígnum. En svo kom að því að ég sá að ég yrði að finna fastan samastað. Ég átti svo sem enga peninga en foreldrar mínir höfðu sagt að ég gæti veðsett Álftamýrina fyrir íbúðarláni.

Ein af þeim íbúðum sem ég skoðaði var í Ásgarði við Bústaðarveg. Fasteignasalinn sagði að ég skyldi koma klukkan 18:00 og eigandinn mundi taka á móti mér. Stundvíslega klukkan 18:00 var ég staddur fyrir utan íbúð í litlu raðhúsi við Ásgarð. Ég ýtti á bjölluhnappinn og í hátalara inni í húsinu og við útidyrnar hljómaði allsvakleg útgáfa af íslenska þjóðsöngnum. Takturinn var sleginn. Það leið ekki á löngu áður en í dyrunum birtist miðaldra maður í stutterma hawaai-skyrtu með þétt, svart  yfirskegg. Hann ljómaði og andlitið var eitt stórt bros þegar hann sá mig. Hann nánast togaði mig inn svo glaður var hann að sjá mig.

„Já, ég kom til að kíkja á íbúðina,“ sagði ég.
„Vertu, velkominn. Hjartanlega velkominn,“ sagði maðurinn svo innilega að ég var viss um að hann væri í stórkostlegum vandræðum með að selja.
Hann var fljótur að teyma mig inn og byrjaði strax að sýna mér að íbúðin var búin hinum ótrúlegustu tæknilausnum. Gluggar voru rafdrifnir og fjarstýrðir, ljós kviknuðu þegar maður gekk inn í herbergi og það slökknaði þegar maður gekk aftur út án þess að maður snerti rofa og í veggjum voru innbyggðir hátalarar. Hann var að rifna úr stolti þegar hann fjarstýrði sínum litlu tæknitrikkum. Eldhúsið var líka búið nýjum tæknilausnum með einhverju segulkerfi sem ég náði ekki alveg. Eigandinn var kampakátur þegar hann sá undrunarsvipinn á andliti mínu. Svo gegnum við út í garðinn sem var bak við húsið og þar var að hans mati hápunkturinn. Fánastöngin.

Mitt í garðinum var fánastöng á steyptum stöpli. Hann benti á hana með stolti og sagði að þessa fánastöng hafði  hann gefið konu sinni í afmælisgjöf og fánastöngin mundi því miður ekki fylgja íbúðinni við sölu.
Ég leit á hann og lét sem ég væri algerlega miður mín yfir þessum nýju upplýsingum.
„Fylgir fánastöngin ekki með?“ sagði ég og gerði mér upp  töluvert tilfinningalegt uppnám sem ég þó reyndi að bæla. (Að leika allskyns postmoderniskar aðstaður er mitt uppáhald).
„Nei, fánastöngin getur þvi miður ekki fylgt með íbúðinni. Þetta er nefnilega, eins og ég sagði, afmælisgjöf mín til konu minnar.“ Eigandinn var augljóslega undrandi á viðbrögðum mínum.
„Frá mínum bæjardyrum er mikilvægt að fánastöngin sé í garðinum,“ sagði ég. Í rauninni veit ég ekki afhverju ég setti þetta fáránlega leikrit í gang. „Ég er tilbúinn til að greiða uppsett verð fyrir íbúðina, en einungis ef fánastöngin er í garðinum,“ bætti ég við.
Maðurinn horfði angistarfullur á mig. Það var augljóst að í huga hans geystust gagnstæðar hugsanir. Í fyrsta lagi var hann óviss um hvort mér væri alvara. Hins vegar. Ef mér var alvara. Að selja eða ekki selja án fánastangar, í því liggur efinn. Gat hann gefið eftir með fánastöngina og fórnað afmælisgjöf konunnar til að fá gott verð fyrir íbúðina. Nei. Það gat hann ekki leyft sér og það vissi ég vel. Ég taldi mig þekkja týpuna.
„Nei, fánastöngin er mikilvæg fyrir okkur,“ sagði hann hikandi. „Fánastöngin var fertugsafmælisgöf til konunnar.“
„Ég skil, en án fánstangarinnar kaupi ég ekki þessa ibúð. Þetta er flott íbúð… en fánstöngin verður að vera hér.“
Hann horfði á mig og reyndi enn að lesa í svip mínum hvort ég væri að grínast eða hvort mér var alvara. Ég horfði grafalvarlegur á hann og gaf ekkert uppi. Sjálfur skyldi ég varla hvaða stuði ég var i. Ég hafði ekki áhuga á íbúðinni og því síður fánastönginni. Íbúðin passaði mér ekki. En ég gaf ekki tommu eftir og snerist á hæli og gekk þungstígur í átt að útidyrunum. Hann kom strax í humátt á eftir mér og ég fann hvernig hann reyndi að finna lausn á þessari vondu klemmu.
„Þakka þér fyrir,“ sagði ég og byrjaði að klæða mig í skónna. „Það aldeilis hvað þú hefur gert margt fyrir íbúðina. Mjög flott.“
„Takk. En … Það er, sem sagt… það er sem sagt ekkert mál að að kaupa nýja fánastöng…“
Ég rétti honum höndina. Hann tók ósjálfrátt í hönd mína.  Við tókumst í hendur og ég gekk út.  Mér fannst leikþátturinn fullkominn. Þetta átti við mig á þessari stundu.

IMG_6939

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.