William Hearst, fjölmiðlakóngurinn, reisti höll hér rétt norður af bænum Cambria þar sem við dveljum nú. Hearst byggði upp stórt fjölmiðlaveldi í Bandaríkjunum í kringum 1900 og var upphafsmaður hinnar svokölluðu gulu pressu. Hann gaf út dagblöð, tímarit, átti kvikmyndaver og var fyrirmyndin að Citizen Kane í frægri kvikmynd Orsons Wells. Fjölmiðlaveldi hans, sem enn lifir, var það stærsta í heimi. Kastalann byggði hann uppi á fjallstoppi, fjarri allri byggð en maður getur séð kastalann frá hinum fræga þjóðvegi númer 1 sem við keyrum eftir á leið okkar norður. Pabbi hans hafði átt landareignina þar sem kastalinn stendur nú og fjölskyldan var vön að ganga upp á fjallið hvert sumar og dvelja þar í tjaldi sumarlangt.

Ég var forvitinn að skoða þennan mikla kastala sem var miðstöð samkvæmislífs Bandaríkjanna fram til ársins 1947, þegar Hearst flutti burt frá kastalanum, vegna heilsu sinnar, þá 86 ára gamall. Í 30 ár, allar helgar, voru gestir hjá Hearst, 15 til 20 manns, samstarfs menn hans, viðskiptafélagar og samkvæmisfólk. Chaplin var nánast vikulegur gestur, ásamt öðrum frægum leikurum, stjórnmálamönnum, íþróttastjörnum, pólitíkusum og sjálfum forsetum þjóðarinnar.
Við keyrðum upp eftir til kastalans í morgun og fengum leiðsögn hjá mjög skeleggri og vaskri konu sem sagði okkur sögu kastalans á um það bil klukkutíma og leiddi okkur í gegnum garða, göng og hinar risavöxnu byggingar. Hearst var 56 ára þegar hann byrjaði að byggja kastalann. Hann sagðist vera orðinn of gamall til að tjalda og vildi byggja eitthvað fallegt til að dvelja í þegar fjölskyldan safnaðist saman uppi á fjallatoppinum á sumrin. Þegar ég heyrði þetta hugsaði ég með mér að ég væri bara 54 ára, ég hefði tvö ár til að undirbúa slíka byggingu ef ég ætlaði að feta í fótspor Hearsts.
Kastalinn er risastór og stendur á fjallstoppi með ótrúlegu útsýni yfir mjúkar hæðir og dali Kaliforníu. Í fjarska er strönd Kyrrahafsins. Hearst byggði 144 herbergi, tvær risasundlaugar (ein inni og ein úti), tvo tennisvelli, dýragarð, gestahús, bíósal, leikjaherbergi með tveimur risabilljardborðum… Þetta er stórfengleg bygging, stórkostleg listaverk á öllum veggjum og í öllum hornum. Þarna sá Hearst um að allir skemmtu sér (sýndi nýjustu kvikmyndir eftir kvöldmat, skipulagði tennismót….) og hefðu það gott, helgi eftir helgi. Hráefni til hinna stórfenglegu máltíða ræktaði hann á landareigninni; nautahjörð gekk um á grasivöxnum völlunum í kringum höllina þannig alltaf var nóg kjöt, hann ræktaði grænmeti og ávexti. Rósir og fegurstu blóm stóðu og standa í beðum svo allt væri í ljóma í kringum húsið og gestirnir hefðu alltaf eitthvað fallegt að horfa á. Frá höllinni stýrði hann sínu mikla veldi. Í höllinni voru 60 símar og skiftiborð þar sem vakt var allan sólarhringinn svo hann gæti alltaf verið í sambandi við skrifstofur sínar í New York og London.
Svona afrek skemmta mér alltaf svo vel. Stórkostlegur ferill, stórkostleg bygging, fegurð, sveifla, öfgar og orka. Þetta dái ég, þetta finnst mér skemmtilegt.
