USA, Monteray. Clint Eastwood

Tempóið á ferðalagi okkar hefur breyst eftir að við komum til Bandaríkjanna. Það er miklu sjaldnar núorðið sem við erum ekki á ferðinni til einhvers áfangastaðar. Það er dagskrá hjá okkur frá morgni til kvölds. Bandaríkin eru þannig í laginu að það er ekki annað í boði en að maður keyri. Ekkert, eða næstum ekkert, er i göngufæri, því höfum við ekið einhver ósköp á þessum þremur vikum, heila 5000 km.

Fyrir mig er þetta ekki óskastaða, ég hef þörf fyrir að hafa enga dagskrá og geta bara lesið eða unnið, farið í stutta göngutúra í bæjarumhverfi, fengið mér kaffi… En það er illmögulegt að dvelja á gististaðnum þegar á dagskrá fjölskyldunnar eru langir túrar. Þar að auki hafa herbergin sem við höfum leigt hérna í Bandaríkjunum oft verið ósjarmerandi INN, einslags hótel. Rúm, og kannski stólar. Sjaldnast borð. Maður hefur eiginlega ekki áhuga á að verja deginum á slíkum stað og ómögulegt fyrir heila fjölskyldu.

Mér finnst ég greina á Daf og Núm að þetta tempó hefur líka áhrif á þá. Sérstaklega Daf, sem er ekki í eins góðum ballans nú síðustu dagana og hann hefur verið hingað til. Það er ekki létt að benda akkúrat á hvað það er sem gefur óballansinn til kynna, en það er einhver óróleiki í honum.

Í dag höfum við kíkt á Carmel, lítinn þekktan bæ hér rétt hjá okkur. Bærinn varð mjög frægur þegar Clint Eastwood var kjörinn bæjarstjóri þar fyrir nokkrum árum. Hann helsta kosningamál var að byggja fleiri bílastæði í bænum, sem er þekktur fyrir sínar fallegu götur og sjarmerandi verslanir. Í Carmel má til dæmis ekki hengja upp neonskilti eða stór auglýsingaskilti. Og það er rétt bærinn er sjarmerandi. Við gengum um aðalgöturnar og kíktum í búðarglugga og virtum fyrir okkur bæjarlífið. Settumst inn á kaffihús og fengum okkur kaffi. Þar spjölluðum við við unga konu, klarinettuleikara um bæinn og forsetakosningarnar í hér í landinu sem liggur Bandaríkjamönnum þungt á hjarta.

Allt um kring eru vínekrur. Hér um slóðir þykja skilyrði fyrir ræktun Pinot Noir þrúgunnar afbragðsgóð og Pinot Noir rauðvínin eru í hæsta gæðaflokki. Inni í Carmen hafa vínframleiðendur sett upp vínbúðir þar sem þeir bjóða vegfarendum uppá að smakka á framleiðslu sinni. Við settumst inn hjá Wrath framleiðandanum sem er hvað frægstur hér um slóðir og smökkuðum á rauðvíninu hans. Við komumst ekki hjá því að kaupa tvær mismunandi rauðvínsflöskur.

Ég les fimm bækur í augnablikinu sem sýnir kannski best sálarástand mitt: 4 bindi MIN KAMP eftir Knausgaard, The day after yesterday (handrit að bók sem er gífurlega HOT í augnablikinu), The Cure for Money Madness eftir Spencer Sherman. Hann er Bandaríkjamaður. Við kynntumst honum og fjölskyldu hans á Nýja Sjálandi. Hann býr í Kaliforníu og hefur boðið okkur í heimsókn í næstu viku. Mér finnst rétt að hafa lesið bókina hans, sem hann er mjög stoltur af. Svo les ég barnabókina, The Lie Tree, eftir Francis Hardinge. Ég er að leita að hinni nýju  JK. Rowling. Í bílnum hlustum við svo á Harry Potter og Fönixreglan (HP5) á dönsku sem er frábærlega lesin af leikaranum Jesper Christensen. Ég vona að Bjartur gefi út Potter á hljóðbók í lestri Benedikts Erlingssonar. Ég held að hann sé akkúrat rétti maðurinn í það.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.