Við höfum enn ekki séð birni. Þeir eru hér allt um kring, svartbirnirnir, en þeir eiga ekki að vera sérstaklega hættulegir. Við erum komin langt út í óbyggðir, út til Yosemite þjóðgarðsins, sem er kannski þekktastur fyrir að ljá nafn sitt til eitt af stýrikerfunum hjá Apple. En sem sagt við erum Yosemite og hér erum við, eftir 5 tíma keyrslu, næstu þrjá daga.
Bíltúrinn gekk vel, hér í Bandaríkjunum miðast allt við að umferð bíla gangi greitt. Við hlustum á Harry Potter og Fönixregluna (Harry Potter 5) undir akstrinum og ég er svo sannarlega hrifinn af lestrinum og enn á ný get ég ekki annað en tekið hattinn ofan fyrir Rowling. Þessi Harry Potter veröld er aldeilis magnaður samansetningur. Við höfum nú hlustað á fyrstu fjórar Harry Potter bækurnar og sú fimmta er meira en hálfnuð.
Það er langt síðan ég hef hlustað svona lengi og einbeitt á talað mál sent út á öldum ljósvakans. Síðast var það, held ég, þegar ég var í heimsókn hjá ömmu minni á Akureyri, sennilega var ég 9 ára. Foreldrar mínir höfðu ákveðið að fara í ferðalag til Englands, án mín, og ég var sendur einn í flugvél norður til ömmu. Ég hef verið meira en lítið vankaður því ég hafði ekki hugmynd um hve lengi ég átti að vera hjá ömmu og hve lengi foreldrar mínir ætluðu að vera erlendis. Og ekki þorði ég að spyrja ömmu mína, það mundi bæði hljóma heimskulega og spurningin gæti misskilist á versta veg; að ég vildi sem fyrst heim. Hún var ströng og var ekkert fyrir að setja hlutina í umbúðir. Ég hafði lært að best væri að halda henni góðri
Tíminn leið hægt hjá ömmu. Ég hafði engan til að leika við og dagarnir siluðust áfram undir þungum slætti Borgundarhólmsklukkunnar í stofu ömmu minnar. Úti var sumar en hvergi var nokkurn að finna sem var úti að spila fótbolta. Af og til gekk ég út og klifraði upp grasivaxna brekkuna bak við húsið og sat mitt í brekkunni, tuggði strá og horfði yfir Eyjafjörðinn.
Mér fannst ég hafa verið í marga daga, ég taldi ekki dagana, þegar mér datt í hug að hlusta á skipafréttirnar til að komast að því hvenær von væri á skipi frá Englandi. Dag hvern, tvisvar á dag, voru lesnar í útvarpinu fréttir af skipaferðum, Fjallfoss er væntanlegur til Hamborgar á þriðjudag... Ég taldi víst að foreldrar mínir hlytu að sigla með Gullfossi, en mér til undrunar voru ferðir Gullfoss aldrei tíundaðar. En ég gafst ekki upp. Tvisvar á dag lagðist ég upp í sófa í stofunni hjá ömmu, kveikti á útvarpinu, lagði eyrað upp að útvarpshátalarnum og beið eftir skipafréttum. Og einbeitingin var alger þegar lesturinn hófst.
Þetta fór ekki fram hjá ömmu minni, en lengi sagði hún ekkert. Á fimmta degi gat hún ekki á sér setið:
“Snæi, afhverju ertu svona áhugasamur um skipafréttirnar?”
“Ég vildi bara heyra hvernig gengi hjá Gullfossi, hvenær Gullfoss kæmi til hafnar,” sagði ég ámátlega.
“Hvers vegna viltu vita það?”
Ég gat ekki annað en sagt hið sanna: “Bara til að vita hvenær mamma og pabbi koma.”
“Þau koma ekki með Gullfossi. Gullfoss siglir ekki lengur. Þau koma auðvitað með flugvél.”
Ég hætti að hlusta á skipafréttirnar, enda leiðinda upplestur, jafnvel verri en veðurfregnir sem voru alltaf lesnar á undan skipafréttunum. En ég fékk mig aldrei til að spyrja ömmu um komudag foreldra minna. Ég veit ekki hvort vistin hefði verið mér léttari hefði ég getað talið niður, dagana.