USA, Yosemite. Draumar og fórnir

Í nótt kláraði ég að lesa Min kamp, fjórða bindið (af sex) í lífsskýrslu norðmannsins Karl Ove Knausgårds, sem nú er orðinn, eftir langa píslargöngu, heimsþekktur rithöfundur.  Það tók mig bara 3 daga að lesa þessa 600 síðna minningabók, enda er stíll Knausgårds sérstaklega léttur og áreynslulaus. Það er bæði fróðlegt og skemmtilegt að lesa um basl Knausgårds frá því hann er 17 til 19 ára. Bókin fjallar um hans tvo stóru drauma: Eitt, að komast upp á kvenmann, (það er 600 síðna barátta sem endar með sigri á síðu 598 og lýsingin á þeirri uppáferð er tvær síður). Tvö, að verða rithöfundur, það er að segja að fá bók útgefna. Sá draumur rætist ekki í þessu bindi.

Eftir lesturinn hugsaði ég um hvað mig hefði dreymt  þegar ég var ungur maður. Ég man satt að segja ekki að ég hafi átt mér mjög skýra og vel skilgreinda drauma, því miður. Þá hefði ég kannski gengið markvissari til verks eða gengið röskara í ákveðna átt. Minn litli Davíð talar oft um drauma sína. Setningarnar hefjast þá á: „Þegar ég verð stór… “ Eiginlega miðast allir hans draumar við að verða ríkur og eignast allskyns lúxusvarning: stórt hús (fleiri en eitt) stóra, dýra bíla (fleiri en einn), þyrluferðir, ferðir með einkaþotum, flug á fyrsta klassa… Það sem vantar í útreikninga hans er að draumar krefjast fórna, stundum mjög stórra. Í huga Davíðs rætast draumar yfir nótt án þess að hann leggi neitt sérstakt að mörkum.

Sennilega dreymdi mig alltaf að verða útgefandi bóka. Ég var mikill aðdáandi forlagsins Svart á hvítu á fyrstu árum forlagsins, löngu áður en forlagið sló í gegn með Nafn rósarinnar. Ég held að ég hafi keypt flestar þær bækur sem forlagið gaf út á fyrstu lífárum sínum. Og ég man að ég átti samtal við vini mína í menntaskólanum um að stofna forlag.

Í dag er síðasti dagur okkar í Yosemite, keyrum á morgun til San Fransisco. Á leið til borgarinnar komum við við hjá Apple í Silicon Valley. Ég er enn að leita að Steve Jobs.

 

e

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.