USA, San Francisco: Hrunið

Stundum er ég feginn að búa ekki á Íslandi. Nú er ég feginn að vera fjarri enn einni „hrun-hysteríunni“. Það er fátt sem mér leiðist meira en hið íslenska tal um „hrunið“.  Sennilega af því að ég flutti af landi brott fyrir hið svokallaða „hrun“.  En þetta er vinsælt umræðuefni á Íslandi, og allir geta fengið smá sjálfsupphefð, því allir eru saklausir, og eiga engan hlut í hinu íslenska hruni. Ég bjó á Íslandi til ársins 2007 og man vel hvernig andrúmsloftið var. Flestir voru ríkir, frægir og á uppleið.

Að öðru leyti sakna ég, ekki Íslands, ég sakna míns fólks.

San Francisco er góður bær, hér er orka og kraftur í loftinu, frelsi og léttleiki. Fólk sér fram á við og ég held satt að segja að ég gæti þrifist hér. Ég gæti vel hugsað mér að búa í bænum. Í gær las ég viðtöl við fólk sem hafði flutt og sest að í New York. Það var skemmtileg lesning og áhugaverð. Öll nefndu þau að þau nutu kraftsins í New York, og að þau nutu frelsisins sem svífur yfir borginni. Mér líkar frelsi og svigrúm, það á vel við hinn hrasandi mann, mér leiðist röfl og nöldur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.