Í morgun fékk ég myndir í tölvupósti frá Ítalíu. Pino, hjálparmaður okkar í landinu, sendi myndir frá La Chisua sem hafði fengið mjög óboðna gesti. Það var skelfileg eyðilegging sem blasti við. Brotnir gluggar, hurðir brotnar af hjörum, járngrindur sem höfðu verið rifnar af veggjum, vatnspumpur fjarlægðar, gashitari eyðilagður… Ég var satt að segja alveg miður min. Innbrot í bíl og innbrot í La Chiusa er nóg fyrir mig til að vera hálfniðurdreginn. En svo bætist ofan í að fólk sem maður hefur treyst í viðskiptum, bregst manni aftur og aftur. Ekkert stenst. Orð eru einskis virði, líka loforð. Ég er svo barnalegur að ég trúi því sem fólk segir mér þótt ég viti að það hafi oft og mörgum sinnum logið að mér. Allt þetta á einum morgni.
Ég verð ekki bara leiður, ég verð líka reiður og vonskvikinn (ef það orð nær yfir útlenska orðið frustration). En það tók mig þó bara einn bolla af espresso að hrista af mér versta leiðan svo var ég klár í daginn.
Í dag áttum við stefnumót við innkaupastjóra dansks stórmarkaðar. Okkar stærsti viðskiptavinur. Hún (innkaupastjórinn) hafði einhvern veginn þefað það uppi að við værum stödd í San Francisco og hún var akkúrat líka í San Francisco í dag ásamt 6 ára syni hennar. Hún sagðist ekkert annað hafa á dagskrá en að hitta okkur! Þetta var ekki draumadagskrá, þar sem maður á ekki mikla samleið, ég og innkaupastjórinn sem er mikil ágætis manneskja. En ekki slær maður á útrétta hönd. Sem betur fer er Sus góð að tala við hana svo hún sá um samræðurnar en ég sá um að keyra bílinn. Innkaupastjórinn hafði óskir um að við kíktum á sæljón sem eru við bryggju 37. Við fórum þangað. Þetta er sá bæjarhluti sem dregur að sér flesta ferðamenn og þetta er bæjarins mest ósjarmerandi bæjarhluti. Þarna vöfruðum við um í leit að sæljónum og í leit að gömlum sprovagni sem hún hafði líka mikinn áhuga á að sjá. Þegar klukkan var orðin hálffimm, eftir að hafa séð eitt sæljón og þrjá gamla sporvagna, lögðum við til að við flyttum okkur yfir í annan bæjarhluta og fengjum okkur kvöldmat. (Eðlileg leið til að ljúka samverunni). Við fundum ágætan veitingastað þar sem við buðum innkaupastjóranum og syni hennar upp á hamborgara. Ekki skemmtilegast dagur ferðarinnar en hefði getað verið verri.