USA, Cloverdale. Lögfræðingur, strippari, læknir

Ekki veit ég hvað olli því að ég var úrvinda í gær. Ég gat hvorki hreyft legg né haldið augnlokunum opnum í gærkvöldi. Hjartað sló hægar en venjulega. Þótt ég drykki aukakaffibolla tókst mér ekki að rífa mig upp. Framundan er bókamessan í London og brennheit handrit streyma inn, uppboð á bókum eru nú daglegir viðburðir og dönsk forlög hrifsa til sín bækur með háum peningaupphæðum áður en bækurnar eru boðnar upp. En ég gat ekki haldið augunum opnum, þótt nú liggi mikið við. Heitu bækurnar mega ekki fljúga hjá án þess að maður lykti að minnsta kosti af þeim. Maður verður að vera á tánum.

Við höfðum verið boðin í heimsókn í gær til bandarískrar fjölskyldu sem við hittum í Nýja Sjálandi í janúar. Spencer heitir fjölskyldufaðirinn og er eigandi fjármálafyrirtækis, Janine heitir móðirin og hún er leikhúskona, börnin tvö, Jeremy er 16 ára og Talia er 12. Á ferð okkar í gegnum Nýja Sjáland hittum við þau í hálftíma á veitingastað í Queenstown og spjölluðum við þau. Það fór vel á með okkur, það var áhugavert að tala við þau. Þau voru á leið út í óbyggðir með tjald til vikulanga útilegu.

Þegar við vorum komin til annarrar borgar, nokkrum dögum seinna, barst okkur tölvuskeyti þar sem okkur var boðið í heimsókn til þeirra þegar við kæmum til Bandaríkjanna í apríl. Og nú erum við á þeirra slóðum (þau búa í smábænum Sebastapol hér í Kaliforníu) og því var komið að heimsóknartíma. Í gærmorgun renndum við inn fáfarna götu í þessum litla bæ í Kaliforníu, þar sem stór mjög svo amerísk hús liggja báðum megin vegarins. Við stoppuðum fyrir utan hús fjölskyldunnar. Við þekktum  þau í raunni mjög lítið og ætlunin var að vera í heimsókn allan daginn. Nóg til að hafa smááhyggjur af  deginum. Húsið var látlaust en stórt. Í heimreiðinn stóð körfuboltahringur og rauður Benzþrafbíll. Allt var kyrrt.

Heimsóknin reyndist mjög ánægjuleg og áhyggjur ástæðulausar.  Spencer, sem er lítill og mjór, rúmlega fertugur,  var í miklu stuði. Hann er gyðingur, kúltúr-gyðingur, ekki trúar-gyðingur, eins og hann segir.  Þau eru öll á kafi í íhugun og jóga. Sérstaklega er það Spencer, sem íhugar hvern morgun áður en hann fer til vinnu. Við fórum með þeim niður á strönd þar sem við vorum einu gestirnir, þau höfðu tekið samlokur með sem voru fullar af fínu áleggi. Síðan gengum við meðfram ströndinni á meðan Spencer hélt uppi fjörinu með sögum af fyrrum konu sinni, sem var lögfræðingur þegar þau giftu sig, sagði upp vinnu sinni á lögfræðistofu til að gerast strippari á nektarbúllu, og þegar þau skildu var hún búin að innrita sig í læknanám. (Nú er hún heilaskurðlæknir).

Janine, virkaði ekki sérlega upprifin af tali Spencer og oft velti ég fyrir mér hvort hún væri þreytt eða hvort hún hefði séð eftir að hafa boðið þessu útlenska og ókunnuga fólki í heimsókn. Hún setti sig oft upp á móti tillögum Spencers eða frásögnum hans. En hún var vinalega og var áhugasöm um að heimsóknin drægist á langin.

Eftir fjöruferðina buðu þau okkur í mat á veitingastað í þorpinu þeirra. Aldeilis fyrirtaks veitingastaður. Fjölskyldan er svo meðvituð um mataræði að allir fjölskyldumeðlimir hafa þróað sínar matarsérviskur. Sumir borða ekki, korn og hveitivörur, aðrir ekki mjólk og mjólkurvörur. Því er nánast ómögulegt fyrir fjölskylduna að sameinast um einn rétt. Veitingastaður er oft lausn fyrir þau.

Við vorum komin á gististað okkar um tíuleytið og ég var ekki til mikilla afreka. Þrátt fyrir hetjulega baráttu við að halda mér vakandi yfir hinum sjóðheita krimma um raðmorðingja sem hefur drepið sex manneskjur en aðeins skilið eftir sig eitt lík …

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.