Ég sé fimm gulbrúnar endur á vappi milli þúfnanna í grasinu við bæjarhlaðið. Þær ganga í hnapp, höggva höfðinu af og til niður í grasið og ef ein þeirra gengur af stað koma hinar endurnar í humátt á eftir. Þær eru fyndnar og ánægðar með sig, og sennilega lífið. Hér á bóndabænum sem við búum á er náttúran; dýrin og jurtirnar, nefnilega höfð í hávegum. Það eru tvær eldri konur sem eru bústýrur og hafa verið það síðustu 30 ár. Bærinn stendur langt uppi í fjöllum og í um það bil 20 km fjarlægð frá Ashland borginni. Hingað er ekki leitt rafmang eða sími. Allt er framleitt hér, rafmagn með sólinni, vatn úr uppsprettum ofar í fjallinu, kjöt, egg, ávextir og grænmeti. Umhverfis bæinn liggja nokkrar ekrur af beitilandi en í útjaðrinum er barrskógur og þar inni fela sig feimnir svartabirnir. Geiturnar á bænum ganga einu sinni á dag út á beitilandið í fylgd með stórum svörtum hundi sem gæti verið blanda af labrador og birni. En þessi hundur, og hvítur hundur af sama kyni, hafa það hlutverk að gæta fjárins fyrir björnum.
Ég hef lengi ætlað að lesa bók Kazuo Ishiguro “The Buried Giant” en einmitt í dag keypti ég bókina. Sennilega vegna þess hve umhverfið hér minnti mig á það sem ég hef lesið um sögusvið þessarar nýju bókar Ishiguros.
Ég hef aldrei hitt Ishiguro og ég held að ég vilji ekki hitta hann. Ég hef svo mikið álit á manninum. Sýslumaðurinn, eins og við kölluðum hann, þann bókelska embættismann sem kom svo oft niður á Bjart til að kaupa bækur og hæla bókum Jóns Kalmans, sagðist iðulega verða fyrir vonbrigðum þegar hann hitti rithöfunda. Eitt sinn þegar sýslumaðurinn átti leið um Bræðraborgarstíginn fengum við heimsókn. Sýslumaðurinn stóð út við dyr og var á leið út, en átti víst eitt eða tvö orð ósögð, þegar inn stormar ungur maður með látum. Kallar okkur Jón Karl nokkrum illum nöfnum um leið og hann hefur sjálfan sig á stall bæði sem orðsins mann og í öllu öðru tilliti. Allt er þetta þó í hálfkæringi og gríni. Hann rýkur svo út með sömu látum. Á meðan á þessu gekk stóð sýslumaðurinn hvumsa út við dyr. Þegar maðurinn var horfinn úr augsýn sagði sýslumaðurinn hressilega: Var þetta ekki rithöfundurinn, og svo nefnir hann nafn mannsins sem hafði birst svo snögglega.
“Jú, þetta var hann,” segi ég hálfafsakandi.
“Ég verð alltaf fyrir vonbrigðum þegar ég hitti rithöfunda. Ég reyni því að lesa bækur þeirra og forðast að hitta höfunda sem ég held upp á.”
Ég hafði eitt sinn nokkur samskipti við Ishighuro. Ég hafði skipulagt fótboltaleik í London milli bókaforlagsins Faber & Faber (forlag Ishiguros) og Bjarts. Forsprakki Faber heitir Lee Brackstone og sagði mér ár eftir ár að hann væri fyrrum atvinnumaður í fótbolta og hafði leikið með liði Shrewsbury. Við vorum því sammála um að skipuleggja leik milli forlaga okkar. Án þess að Lee vissi hafði ég samband við Ishiguro og sagði honum frá hinum fyrirhugaða fótboltaleik milli bókarforlaganna tveggja. Ég benti rithöfundinum á að hann gæti valið um að spila fyrir Bjart eða Faber, en ég yrði gífurlega ánægður ef hann veldi að spila fyrir Bjart. Ishiguro svaraði mjög kurteislega að hann væri auðvitað sérlega áhugasamur um þennan knattspyrnuleik en hann gæti einfaldlega ekki gert upp á milli sinna tveggja góðu bókaforlaga. Hann hefði því ákveðið að bjóða fram þjónustu sína sem vatnsberi beggja liða.
Því miður varð ekkert úr leiknum, Lee bar við meiðslum í sínu liði.
ps. nokkrum árum seinna varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að spila fótbolta gegn Lee Brackstone, þessum fyrrum leikmanni Shrewsbury. Ég verð að segja að eftir þá reynslu efast ég um að við höfum lagt sama skilning í orðið atvinnumaður í knattspyrnu.