USA, Ashland. Teborðið og klukkan Gvenní

Í efstu hillunni í eldhúsinu heima hjá mér er gullhúðuð, lítil standklukka. Þótt hún standi á fjórum litlum gullfótum er hún ekki hærri en dós, dós með t.d. niðursoðnum tómötum. Því miður stendur klukkan alltaf föst á hálftólf og hefur verið þannig síðan ég fékk hana. Arfur minn frá foreldrum mínum. Klukkan hefur frá því ég man eftir mér verið kölluð Gvenní. Ég held að mömmu minni hafi áskotnast hana í einum af ferðum sínum til Englands, kannski árið 1956. Í Englandi keypti hún líka, miklu seinna, gullhúðað teborð á hjólum. Teborðið var aldrei notað, það stóð á sínum stað úti í horni, en mamma hafði hugsað það sem vagn undir veitingar, þessi tuttugu skref frá eldhúsi til stássstofunnar. Gestkomur voru tíðar í Álftamýrinni og gestir voru alltaf leiddir til stássstofunnar. Þrátt fyrir að þessi gullhúðaði, litli veitingavagn væri á heimilinu kom mamma mín aldrei keyrandi með tevagninn hlaðinn kökum, kaffi og öðru góðgæti inn í stofuna, gestum til gleði, eins og hún hafði séð fyrir sér. Hún var of feimin, þegar á hólminn var komið til að koma frá eldhúsinu ýtandi gullvagni á undan sér með eftirvæntingafullt augnaráð hinna gestkomandi hvílandi á sér.

Klukkan Gvenní stóð í hillu í  stássstofunni í Álftamýri og á hverjum morgni var það mitt verkefni að trekkja klukkuna. Þegar ég kem aftur til Danmerkur ætla ég að fá úrsmið til að gera við Gvenní svo hún telji mínúturnar rétt.

Það er kvöld hér í sveitinni og bleksvart myrkur. Ég heyri kiðlingana jarma fyrir utan gluggann. Á morgun höldum við áfram til norðurs. Hipsterarnir í Portland bíða eftir okkur.

 

dagbók