USA, Portland. Hulin skýjum, þakin snjó

Síríus er 8,6 ljósár frá jörðu. Um það syngur Nick Cave í söngnum We Real Cool. Þótt myrkrið við sveitabæinn í Ashland væri í gærkvöldi kjörið til stjörnuskoðunnar fann ég ekki Síríus þegar ég leit upp í himininn. Kannski vegna þess að himinninn var hulinn skýjum. Í morgun þegar við vöknuðum var jörðin aftur á móti þakin snjó. Það var kominn tími til að halda áfram. Gömlu konurnar tvær, gestgjafar okkar, kvöddu okkur innilega og vonuðu að við kæmum aftur. Komum við aftur?

Portland er 276 mílur frá Ashland. Við keyrðum í gegnum þétt regn. Umferðin var þung og stóru flutningabílarnir drógu á eftir sér hvít regnský. Hér er úrkoma 250 daga ársins en það hindrar ekki yngri íbúa Portland að vera real cool. Í borginni Portland er þéttasta byggð hipstera á jörðinni.

Þótt ég kallist seint hipster, til þess er t.d. skeggvöxtur minn alltof slappur, gæti ég vel hugsað mér að búa hér. Yfir bænum er afslöppuð og vinsamleg stemmning. Kaffisölur eru nánast á hverju götuhorni og meira en 250 smábruggarar hræra saman bjórblöndur í smábrugghúsum sínum um allan bæ. Við búum í mjög fínni íbúð í eigu flugmanns sem akkúrat nú, í þessum skrifuðu orðum, er uppi í himinloftunum, þ.e. milli himins og jarðar, á leið til áfangastaðar fjarri Portland.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.