USA, Portland: Vilji og refsing

Ég er nýkominn úr smá gönguferð niður til beyglubakarans sem er í húsi á götuhorni ekki fjarri þeim stað sem við leigjum í norðvesturhluta Portlands. Ég er einn á þessum stutta göngutúr. Það gerist ekki oft á ferðum okkar að ég gangi einn míns liðs. Klukkan var rétt að verða átta og það er laugardagsmorgunn yfir Portland. Fáir voru á ferli, satt að segja mætti ég engum, morgunbirtan var skörp og varpaði löngum skuggum niður á götuna. Beyglubakarinn er vinsæll og býður upp á léttristaðar beyglur með smöri. Og hjá honum getur maður líka pantað espresso kaffi í ferðabolla, sem ég og gerði, og tók svo með upp í íbúðina. Ég lagði á morgunborð. Beyglur og kaffi.

Á labbi mínu (ömmu minni líkaði illa ef ég sagði að fólk labbaði. Í hennar huga voru það bara hundar sem labba.) niður götuna var mér hugsað til orðanna að fá vilja sinn og hvaða refsingum er mögulegt að beita fái maður ekki það sem maður vill. Ég hafði nefnilega lesið um karlmann sem var óánægður með tónlistarflutning í farartæki sem notað er til almenningssamgangna, hvort það var sporvagn eða langferðabíll man ég ekki. Hann gekk til bílstjórans og fór fram á að annaðhvort yrði flutt, það sem hann kallaði, betri músik fyrir farþegana eða slökkt yrði alveg fyrir útvarpið. Bílstjórinn neitaði að verða við óskum farþegans svo karlmaðurinn ákvað taka til sinna ráða til að fá vilja sínum framgengt, í ofanálag ákvað hann að refsa bílstjóranum fyrir óhlýðnina. Hann reif því útvarpstækið úr mælaborði bílsins/sporvagnsins og sló því í höfuð hins óþæga bílstjóra. Svona eru sumir ákafir að fá það sem þeir vilja. Aðrir nota einungis refsingar án þess að endilega að fá óskir sínar uppfylltar.

Framundan er bjartur dagur.

IMG_7113
Mosavaxinn hipsterbíll

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.