USA. Seattle. Héðinshúsið

Enn vaknaði ég snemma í morgun til þess að rölta niður til beyglubakarans á götuhorninu. Þrjá morgna í röð hef ég byrjað daginn á þessum fallega göngutúr niður brekkuna í skarpri morgunbirtunni. Það var sunnudagsmorgunn og eins og í fyrri morgunferðum mínum mætti ég ekki sálu. Á labbinu var mér hugsað til orðanna val og ábyrgð.

Í gær hafði ég skrifað til tveggja manna á Íslandi og spurt þá um örlög Héðinshússins vestur í bæ. Síðast þegar ég kom til Reykjavíkur virti ég þetta gamla hús fyrir mér og furðaði mig á hvað allt umhverfis húsið var nöturlegt. Húsið sjálft var líka hálfdapurleg sjón.

Áhugi minn á Héðinshúsinu kemur til af tvennu. 1) Mig dreymir (á meðan ég sef) aftur og aftur stór iðnaðarhúsnæði á mörgum hæðum sem ég geri upp með lélegum árangri og ærnu erfiði. 2) Leikhúsið frú Emilía starfaði í Héðinshúsinu í nokkur ár. Hafliði bróðir minn og félagi hans Gíó ráku þetta litla leikhús af miklum krafti og metnaði. Ég var gífurlega hrifinn af leikhúsinu og þeir félagar, Hafliði og Gíó, voru svo hjartagóðir að leyfa mér, ungum manninum, að snúast í kringum þá og leikhúsið. Þetta voru góðir tímar fyrir mig og mér fannst ég læra margt.

Af þessari ástæðu verður mér stundum hugsað til Héðinshússins. Ég fékk svör við fyrirspurn minni og það voru svörin sjálf sem vöktu athygli mína. Ég var ekki svo miklu nær um stöðu Héðinshússins. (Ef einhver sem les þetta og veit hvaða framtíð bíður hússins væri ég glaður að heyra um það). Fyrra svarið hljómaði einhvern veginn á þessa leið: Andri Gunnarsson (sonur Gunnars Einarssonar bæjarstjóra Garðabæjar) vildi kaupa húsið og byggja lúxusíbúðir. Þar eiga líka að vera flottar og dýrar búðir og veitingastaðir þannig að fólkið í lúxusíbúðunum þurfi aldrei að fara langt frá heimili sínu.

Hitt svarið hljómaði orðrétt svona: „Það er eitthvað ríkt pakk úr Garðabæ sem hefur keypt húsið og ætlar að breyta í stórar lúxusíbúðir fyrir hitt ríka hyskið.“

Ég var hissa á tóninum í þessum svörum (auðvitað fyrst og fremst í hinu síðara). Afhverju var svona vont að breyta Héðinshúsinu í hús með glæsiíbúðir? Ekki er ætlunin að í Reykjavík séu einungis byggðar litlar og ljótar íbúðir? Og hvað er rangt við að hafa veitingastað og verslanir í þessu sama húsi. Mér finnst einmitt framfaraskref að byggja fínar íbúðir á eftirsóknarverðasta stað Reykjavíkur og efla þar að auki verslun og veitingaframboð í þessum bæjarhluta. Gera bæjarhlutann líflegri. Og afhverju er talað um fólk sem á peninga sem pakk og hyski. Ég á erfitt með að skilja að fólk leyfir sér að setja fólk sem á peninga í einn flokk, hyski. Eða að fólk sem býr í ákveðnu bæjarfélagi sé illa innrætt. Hvers vegna gerir peningaeign fólk að hyski? Eru ekki allir að berjast fyrir því að eignast fleiri peninga? Getur ekki verið að fólkið sem standi að endurbyggingu Héðinshússins sé harðduglegt og heiðarlegt fólk?  Og hafi kannski með dugnaði og snilld unnið fyrir ríkidæmi sínu?  Ég bý langt frá Íslandi en mér finnst tónninn í umræðu frá Íslandi stundum vera hálfneikvæður og ótrúlegt framboð af staðalskoðunum.

Út frá þessum vangaveltum varð mér hugsað til orðanna ábyrgð og val. Þau komu bara upp í huga mér á göngunni eftir götum Portlandsborgar. Val og ábyrgð. Maðurinn er einn og hann stendur frammi fyrir eilífu vali. Hvert augnablik krefur hann um val, beygi ég til hægri eða vinsti, geng ég eða hleyp. Hann einn ber ábyrgð á vali sínu.

Ég er sólóisti. Ég geng einn, ég fylgi konunni með ljósið.

Þegar ég hugsa um alla þá neikvæðni, öfund og hatur sem stundum virðist vera svo grunnt á, og speglast að sumu leyti í síðara svarinu um Héðinshús, koma mér í hug orð manns sem sagði við mig: Einu sinni var það svo að ef þú hafðir ekkert gott til málana að leggja áttir þú að halda kjafti. Nú, í stað þess að þegja leggja menn óyndi sitt á facebook. Ekki veit ég hvort þetta er rétt. Ég get bara dáðst að facebook, snilldarverkfæri, en þó ekkert fyrir mig. Ég er sólóisti. Ég geng einn.

Við erum komin til Seattle. Síðasti áfangastaður okkar í Bandaríkjunum. Hér verðum við í þrjár nætur áður en við höldum ferð okkar áfram yfir landamærin til Kanada. Það styttist í ferðalok.

IMG_7159
Seattle er líka hipsterabær eins og Portland. Hér er mynd af mosavöxnu hipsterhjóli.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.