USA, Seattle: Listi yfir órökstutt óþol

Bill Bryson er upphafsmaður og hugmyndasmiður lista yfir þá hluti sem maður má láta fara í taugarnar á sér án þess að þurfa að útskýra það frekar. Þar sem hann er stofnandi listans má hann hafa fimmtán atriði á listanum, á meðan aðrir hafa aðeins leyfir fyrir tólf. Ég hef hingað til bara sett einn lið inn á listann minn; karlmenn með snyrtilegt doughnut skegg. Bill Bryson hefur í efsta sæti á sínum lista karlmenn í laxableikum buxum.

Ég velti þvi fyrir mér í dag hvort ég ætti að bæta á listann minn. Ég hef enn ekki ákveðið mig, maður verður að vanda sig við þessa listagerð. Ég var á veitingastað í kvöld, ágætum stað í töffaralega hönnuðu húsnæði, og inn kom maður á miðjum aldri í fótboltatreyju sem strekktist yfir bumbuna á honum, svo maður velti fyrir sér hvort hann feldi fótbolta undir treyjunni. Kannski bara nýkominn af fótboltaæfingu?  Í vinstri eyrnarsnepli mannsins hékk  gullhringur, meðalstór. Ég hugsaði strax með mér; ég ætti að bæta miðaldra karlmönnum í fótboltatreyju á listann minn. Og svo hugsaði ég áfram. Og kannski líka miðaldra karlmönnum með gullhring í eyranu. Eða ætti ég að sameina þetta tvennt og segja: Í öðru sæti á lista mínum yfir órökstutt óþol eru karlmenn í fótboltatreyju með gullhring í eyranu?

IMG_7168
Hér í Seattle er eina götubókabúð Amazon.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.