Kanada, Vancouver Island. Alt-Ari

Ég er háttaður og kominn undir sæng. Allt er hljótt í þessu litla húsi sem við búum í á fínum stað á Vancouver Island. Ég hef aldrei verið í húsi sem hefur í sér svo mikla og þunga þögn. Þótt í húsinu búi hjón á miðjum aldri og séu bæði heimavið er alltaf eins og enginn sé heima, að enginn sé í húsinu. Þau leigja gestum 3 herbergi á efri hæðinni en eru sjálf á neðri hæðinni. Þögnin verður til þess að ég fer ósjálfrátt að tala í hálfum hjóðum, nánast hvísla. Þegar ég loka dyrum geri ég það eins varlega og ég get. En þrátt fyrir þetta mikla hljóðteppi sem liggur yfir húsinu fer vel um okkur hjá þessum ágætu hjónum. Húsbóndinn er afar þögull, hæglátur og lætur lítið fyrir  sér fara, en hann er einmitt sá sem sér um morgunmat fyrir gestina svo hann hittum við á morgnana. Hann gengur með lítil gullspangargleraugu, hann er þunnhærður og verkar á mig eins og maður sem keyrir bíl af minnstu gerð, kannski Skoda Fabia.

Við stigum á land í gær, eftir 3 tíma siglingu frá Seattle, komum farangri inn á herbergi okkar og fengum okkur síðan göngutúr í sólinni til að skoða bæinn. Á leið okkar eftir götum bæjarins komum við að fallegri kirkju. Við gengum inn og ég settist á bekk. Orgelleikari æfði sig á kirkjuorgelið og meðhjálpari lagfærði eitthvað við altarið. Annars var enginn inni í kirkjunni. Ég sat í dágóða stund á kirkjubekknum, naut kyrrðarinnar og fylgdist annars hugar með athöfnum meðhjálparans og hlustaði á orgeltónana. Mér varð hugsað til pabba míns fyrir framan altarið í Háteigskirkju. Hann passaði alltaf upp á að allt væri fallegt við altarið, að allt væri í röð og reglu og hlutirnir á sínum stað.

Skyndilega, þegar ég sit þarna á kirkjubekknum, kom upp í huga minn óskiljanleg bílferð í pallbíl upp í Hafnarfjörð fyrir meira en 20 árum. Bílstjórinn hét Ari, ég man ekki afhverju við keyrðum saman til Hafnarfjarðar, ég og þessi Ari. Ég man að ég spurði hann við hvað hann starfaði.
“Ég er altari,” svaraði hann. Ég hafði einmitt tekið  eftir því þegar ég steig inn í bílinn að á dyrnar farþegameginn hafði  verið skrifað stórum, hvítum stöfum, gerðum úr einskonar teipi: ALT-ARI. Ég horfði skilningssljór á manninn og reyndi að tengja altari við hann. Ég sá enga tengingu. Hann var bæði skítugur og ritjulegur. Hann sá fljótt að þetta nýstárlega starfsheiti hringdi engum bjöllum hjá mér, svo hann bætti við: “Allt, þú veist… alveg allt. Og svo ég… Ari.”
Ég var engu nær. Hvað var maðurinn að meina? Allt… og svo ég… Ari. En ég vildi ekki gera þetta samtal enn erfiðara en það þegar var með því að vera svona skelfilega tregur. Ég sagði bara, “já… já, einmitt,” og leit svo út um hliðarrúðuna.

Það var ekki fyrr en við renndum upp að því húsi þar sem hann bjó að rann upp fyrir mér ljós. Við Ari stigum út úr bílnum og gengum í átt að húsinu hans sem bókstaflega lafði saman. Þvílíka hrákasmíð á öllum hlutum hafði ég aldrei á ævinni séð. Allt var skakkt og klastrað saman á ólíklegasta hátt. Tröppurnar, byggðar úr afgangsvið, voru skakkar og áttu ekki langt líf fyrir höndum, útihurðin passaði hreinlega ekki í dyraopið svo það var 10 sentímetra gap að ofan og neðan auk þess sem hurðin hékk skökk á hengslunum. Gluggakarmar voru lausir eða dottnir af og útiljósið, sem einhverntíma hafði verið skrúfað fast á gaflinn við útidyrnar, hékk nú á einum bláum rafmagnsvír og ryðgaðar skrúfur hringluðu  lausar í skrúfugötunum.
Ari leit stoltur á mig og benti á húsið: “Allt þetta hef ég smíðað sjálfur. Alt-Ari,” sagði hann og barði tvisvar, fast á brjóst sér.

IMG_7207.jpg
Blómin í fallegasta garði í heimi

dagbók

Ein athugasemd við “Kanada, Vancouver Island. Alt-Ari

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.