Kanada, Vancouver Island. Ástir klarinettuleikara

Í þögla húsinu á Vancouver Island, húsinu sem við gistum í, ber húsbóndinn, Carl,  fram morgunmat á hverjum morgni. Gestir heimilisins, sem nú eru 3 auk okkar: Nancy, 63 ára, klarinettuleikari frá Bandaríkjunum. Vel feit og snyrtileg. Jack, kanadískur póstberi á eftirlaunum (um það bil 65 ára). Týpan sem gengur um allt á stórum hlaupaskóm. Og kona hans, Sally,  félagsráðgjafi á eftirlaunum (sennilega 60 ára). Þau koma frá Calgary.

Allir setjast við borðstofuborðið klukkan 08:30. Kvöldið áður hefur Carl lagt á fallega borð. Hvít bollastell og tauservíettur í silfurservíettuhringjum. Það er greinilegt að hann leggur töluverðan metnað í morgunveitingarnar. Fastur liður á morgunseðli Carls eru 2 litlar pulsur, appelsínusafi og lítill bikar með blönduðum berjum og lítilli rjómaslettu. Hvern morgun bryddar hann þó upp á óvæntum, nýjum aukamorgunrétti; t.d. french toast eða  aspargusböku. Í morgun laumaði hann stoltur einskonar pizzubrauði á diskana.

Gestirnir þrír eru sem betur fer ræðnir. Sus, Daf og Núm segja að þeim þyki klarinettuleikarinn Nancy leiðinleg. Ég er ekki sammála. Hún talar að vísu bara um sjálfa sig og músik. En ég er áhugasamur um músiktal hennar. Póstburðarmaðurinn og félagsráðgjafinn eru kurteisari og sýna drengjunum og  ferðlagi okkar áhuga. Á meðan gestirnir ræða saman heldur húsbóndinn Carl sig inni í eldhúsi. Í bakgrunn samræðnanna heyrist sýsl Carls frá eldhúsinu. Af og til gægist hann inn til okkar gestanna, með viskustykki yfir öxlina, og þegjandi bætir hann kaffi eða appelsínusafa í glös og krúsir gestanna.

Í morgun voru samræðurnar líflegar eins og fyrri morgna; Nancy talaði um músik, konserta og hvernig hlutirnir eru þar sem hún býr í  Washington fylki. Póstmaðurinn talaði um líf póstmannsins, viðureignir hans við hunda og kosti þess að eldast sem póstburðarmaður. Sally kinkar kolli af innlifun og hallar undir flatt. Svo skyndilega, eiginlega upp úr þurru, kemur þetta sérkennilega augnablik í samræðunum. Nancy er að lýsa því að allt frá því hún byrjaði að læra músik hafi henni fundist  tungumál tónlistar verið henni í blóð borið. Hún byrjaði seint að læra tónlist. Nótur og tónstigar voru henni eins og opin bók allt frá upphafi. Svo segir hún skyndilega og horfir dreymin út í loftið: „Ég man eftir því þegar pabbi minn flengdi mig. Hann flengdi mig bara einu sinni. Ég var nýbyrjuð að læra tónlist, ég hafði sótt verkfæri inn í eldhús og byrjaði að tromma á stólarma tréstóls sem var inni í stofunni heima. Þegar pabbi minn sá þetta varð hann reiður og sagðist verða að flengja mig. Það var í eina skiptið sem ég var flengd.“

Félagsráðagjafinn horfir með hluttekningu á hana. Þær horfast þegjandi í augu yfir borðið og við hinir borðnautarnir sitjum hljóðir og látum myndina af þessari feitu konu á hnjám föður síns hvíla dálitla stund á sjónhimnunni. Svo bætur hún við, mjög viðkvæmislega: „Þegar ég var 60 ára sagði pabbi minn við mig. Þú verður alltaf litla stelpan mín.“

Félagsráðgjafinn grípur orðið á loft: „Maður kemst að því þegar foreldrar manns falla frá að enginn elskar þig eins og foreldrar þínir.“ Hún setur báðar hendurnar á bringu sér og bætir við. „Þú færð aldrei þess konar ást aftur.“ Löng þögn. Ég beið eftir því að konurnar tvær héldu áfram samtali sínu um ást foreldra en báðar voru horfnar inn í sig. Báðar horfðu með söknuði inn í sínar minningarlendur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.