Fyrir mörgum árum var ég svo heppinn að fá að kynnast Birni Jónassyni, sem er sennilega þekktastur fyrir að vera stofnandi og aðalsprauta bókaforlagsins sáluga, Svart á hvítu. Björn er forvitnilegur maður, fyndinn og skarpur. Eins og margir aðrir áhugaverðir einstaklingar, hefur hann sína áberandi bresti. Eftir að maður kynnist honum verður maður snemma að taka afstöðu hvort hans stóru kostir yfirtrompa það sem maður sjálfur metur sem galla. Það er swing á honum.
Mér varð hugsað til hans í dag þegar Númi fór að amast yfir því sem hann kallar hirsilíferni. Hirsilíferni er eitur í hans beinum, og það leiðinlegasta sem hann veit. Í huga Núma felur hirsilíf í sér ofuráherslu á hið ofurholla (mikið hirsi), hið ofurrétta, bæði fyrir líkama, sál og náttúru. Í dag bað hann Davíð að hnippa í sig ef hann einhvern tíma í lífinu færi að hallast í átt að hirsihugsanagangi.
Á meðan Númi amaðist yfir hirsi rifjaðist upp fyrir mér ein af þeim tilvitnunum sem Björn hafði oft á takteinum: “summa lastanna er konstant”. Og með því vildi hann benda á að sama hversu duglegur maður var að taka upp betri siði í lífi sínu, bætti í hirsið, kæmi að uppgjöri. Að hætta einum ósið leiddi óhjákvæmilega til þess að maður tæki upp annan. Það er enginn möguleiki á að setja upp lastastíflu. Lastastíflan mun bresta. Ef kenning Björns er rétt ætti að vera komin alvarleg sprunga í minn lastaflóðgarð. Ég á orðið erfitt að finna mína lesti, allt er orðið að hirsi. Hápunktur lastalífs míns er kannski þegar ég drekk minn fjórða kaffibolla á einum degi annars er ekkert nema hófsemd og bindindi.