Kanada, Tofino. Megas og bókasafnshjónin

Mig dreymdi í nótt að Megas, söngskáldið, sæti mér við hlið á einhverri samkomu og stundaði þá ömurlegu iðju að taka sjónlinsur úr augunum, sleikja þær og kasta í mig. Hann ásakaði mig fyrir, það sem hann kallaði, að vera Guggusinni (og vísaði í Guðbjörgu Vilhjálmsdóttur fyrrum nágranna minn). Við sátum við langt tréborð ásamt öðru fólki. Það var eins og hann hefði töluverðar birgðir af þessum munnvatnsvotu og slepjulegu linsum, því ég sat lengi undir blautri drífu áður en ég tók til minna ráða. Seinn til vandræða eins og venjulega. Ég þekki ekki Megas og hef aldrei neitt haft af honum að segja.  Mér hefur samt af einhverjum ástæðum aldrei alveg líkað persóna hans. Í þessum draumi birtust mér líka hin svokölluðu bókasafnshjón, Kristján B. og Gerður Kristný, þau voru á flótta undan mér.

Draumurinn var ansi óþægilegur og ég vaknaði upp með andköfum, eins og Enid Blyton mundi orða það, og gat ekki sofnað aftur þótt hánótt væri. Í vökunni tóku við hugsanir um hinar ólíku persónur, sem ég þekki og kannast við, úr íslensku menningarlífi. Ég komast að þeirri niðurstöðu að vald þeirra í íslensku samfélagi væri mun meira en þau grunaði eða vildu kannast við. Allt þetta fólk sem kom upp í huga mér hefur frábær tök á hinu talaða og skrifaða máli. Til þeirra er því oft leitað þegar fjölmiðlar vantar viðmælendur, enda betri viðmælendur vandfundnir. Oft óska ég mér að þetta tal- og skriffima menntafólk nýtti sér þann hlutfallslega langa útsendingartíma sem því býðst til að bjóða oftar upp á nýjar, snjallar framfararhugmyndir. Lífið er miklu meira virði ef ævistundirnar eru notaðar í gleði og góð orð.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.