Kanada, Sunshine Coast. Asninn og asnarnir

Höfuðáttirnar fjórar eru þrjár, norður og suður, sagði skáld fyrir mörgum árum. Því miður man ég ekki hver það var sem komst svona vel að orði. Ég er á leið norður, til Íslands, í lok mánaðarins, ég hlakka til. Stundum er eins og á Íslandi séu höfuðáttirnar tvær, víddirnar ein. Hver og einn bergmálar annan og endurtekur hinn, fáir viðra annað en hina viðteknu skoðun til þess eins að setja sjálfan sig í gott ljós. Allt er svo sjálfgefið. Ég hef þörf fyrir að heyra sjálfstæðar raddir eins og þyrst blóm þráir vatn. Ég þrái frumlega, sjálfstæða hugsun. Ég fyrirlít þessa einóðu einstefnu. Davíð Oddsson er asni, Davíð Oddsson er asni, Davið Oddsson er asni. Ólafur Ragnar er asni…

Ég neita að deila heiminum í tvennt. Gefið mér fleiri víddir. Það eru 360 gráður í hring. Kúlur og píramíðar.  Ekki bara upp og niður. Ekki bara hægri og vinstri. Ekki bara norður og suður. Það er líka til eitthvað sem heitir milli himins og jarðar. Út í bláinn. Á móti straumnum. Og handan stjarnanna.

IMG_7314
Frá pönnukökuveislu gærdagsins

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.