Kanada, Sunshine Coast. Þrír ósigrar

Gærdagurinn gæti farið í minningabækurnar sem dagur ósigranna. Ég er fæddur sigurvegari en í dag var ég ekki bara sigraður einu sinni heldur þrisvar sinnum og það á einum degi. Dagurinn í dag er aftur á móti dagur tvöfaldrar hátíðar.

Hér í Kanada erum við 9 tímum á eftir meginlandi Evrópu og 7 tímum á eftir Íslandi. Sem sagt þegar ég er að fara að sofa eru þeir sem eru austan meginn við mig (Evrópa) að vakna til næsta dags. Þegar ég svo vakna til næsta dags eru Evrópubúar um það bil á leið heim úr vinnu, búnir að senda hálft tonn af tölvupósti til mín  á meðan ég hef sofið. Mín bíður því töluvert magn skilaboða hvern morgun þegar ég vakna. Í gær voru skilaboðin bara ekkert sérlega uppliftandi.

Ég hafði tekið þátt í smásamkeppni í lok síðasta árs og byrjun þessa, algerlega af frjálsum vilja og mér til skemmtunar. Ef ég hefði unnið samkeppnina hefði ég unnið 25.ooo danskar krónur. Ég hafði lagt töluvert á mig til að vinna, þótt ég hefði í raun ekki alveg aðstæður til að keppa þar sem ég var á ferðalagi og erfitt að einbeita sér að verkefninu. En mér tókst að skila verkefninu en niðurstöður létu svolítið bíða eftir sér. Í gær fékk ég svo bréf um að ég hefði ekki unnið. Ég hafði satt að segja ekki gert mér vonir um sigur en samt fannst mér hálferfitt að taka ósigrinum.

Aðeins neðar í listanum yfir ólesna tölvupósta var bréf frá einum af þeim agentum sem ég hef unnið mikið með. Hr. Ferdinand hafði tekið þátt í uppboði á bók sem við höfðum mikinn áhuga á að gefa út. Þetta var ein þessum fáu bókum sem maður vill bara gefa út. Slíkar bækur fær maður kannski í hendurnar að meðaltali einu sinni á ári. Við vorum búin að bjóða 50.000 dollara í danska þýðingarréttinn (7.000.000 ikr) en samt töpuðum við uppboðinu til annars dansks forlags. Ég varð gífurlega spældur.

Ég fór á fætur og reyndi að hrista af mér ónotin, ósigrana og vonbrigðin. Var lengi undir sturtunni, fór svo inn í eldhús og hellti upp á sterkt og gott kaffi. Borðaði banana á meðan ég horfði út um gluggann og fylgdist með kínverskum nágrönnum mínum fá sér morgunsígarettu úti á plani. Ég heyrði að aðrir fjölskyldumeðlimur voru smám saman að koma sér á fætur Svo ristaði ég brauð og setti musli á borðið og kallaði á fólk í morgunmat. Á meðan ég beið eftir að allir settust heyrði ég að enn einn tölvupósturinn lenti í tölvupósthólfinu mínu. Ég opnaði símann minn og sá að annar agent vildi nú segja mér fréttir. Og það voru heldur ekki góðar fréttir. Kvöldið áður, og langt fram á nótt, hafði ég lesið hörkuspennandi handrit og hafði ætlað mér að bjóða í bókina þegar ég vaknaði. En nú segir agentinn mér að hann hafði selt einu af samkeppnisforlögum mínum bókina fyrr um morguninn. Boðið var svo gott að hann seldi á staðnum án þess að gefa mér sjéns. Grrrrrr.

Í dag hefur sólin skinið. Út um gluggann í strandkofanum, sem við leigjum nú og næstu daga, sér maður út á hafið. Sjórinn er spegilssléttur. Hér rétt fyrir utan er lítið sker og þar liggja sæljón og atast í hvert öðru með gelti og urri. Það er ástæða til að halda upp á daginn. 30 apríl. Mamma hefði orðið 95 ára í dag. Hefði hún verið lifandi hefði hún bakað pönnukökur. Skírn Styrmis Steinþórs- og Söndrusonar í dag var önnur ástæða til hátíðarhalda. Númi og Davíð tóku því að sér að baka pönnukökur í anda ömmu Guðrúnar, henni og Styrmi til heiðurs. Svona skiptast á skin og skúrir hjá ferðalanganum. Já.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.