Kanada, Sunshine Coast. Náttúruleg leiðindi

Nú höfum við enn fært okkur um set. Við kvöddum gestgjafa okkar Jogga og Kristínu í morgun. En þau höfðu leigt okkur strandkofa með aldeilis frábæru útsýni út á hafið. Joggi og Kristín eru hjón á sjötugsaldri, bæði kennarar á eftirlaunum. Bæði eru þau ákaflega hjálpsöm og gestrisin. En Joggi hefur sérstakt náttúrutalent.

Í gær vorum við boðin í hádegismat hjá þessum ágætu hjónum. Ég hafði að vísu tekið eftir, án þess að hafa orð á því, að Joggi er af náttúrunnar hendi gífurlega leiðinlegur maður. Það er ekkert vont hægt að segja um hann, hann er vinsamlegur, hjálpsamur, velviljaður og brosmildur en hann er bara gífurlega leiðinlegur. Hann getur ekkert gert að því. Sennilega er einhver í heiminum sem þykir hann skemmtilegur, en ekki mér.

Honum tókst að króa mig af á fyrsta degi, úti á veröndinni, þannig að ég átti engrar undankomu auðið. Ég var þreyttur eftir langan akstur eftir mjóum og hlykkjóttum vegum Sunshine Coast. Joggi hafði tekið á móti okkur og sýnt okkur gagnlega hluti varðandi kofann sem hann leigði okkur. Af einhverjum ástæðum var ég allt í einu staddur einn á veröndinni með honum. Hann byrjaði að benda mér á hús inni í skóginum á nesi ekki langt undan.
“Sjáðu húsið þarna,” segir Joggi og bendir á húsið. “Þegar eigandinn dó fyrir 6 árum kom í ljós að hann skuldaði 8 milljónir í skatta.” Joggi hlær.
“Uhumm,” sagði ég og virti húsið fyrir mér.
“Nú býr sonur hans í húsinu. Hann vill ekki selja alveg strax. Hann bíður eftir að húsið hækki í verði,” segir Joggi enn hálfhlæjandi. Allar setningar hjá honum enda með þessum hálfhlátri. Um leið berar hann fölskustu tennur sem ég hef á ævinni séð.
“Uhumm,” segi ég og horfi enn á húsið. Píri augun í átt að byggingunni eins og ég sé að reyna að sjá betur á milli trjánna. Ég geri allt rétt til að sýnast áhugasamur.
“Tracy, hann heitir það maðurinn, er sjaldan heima. Stundum sé ég hann kveikja eld fyrir utan húsið.” Smáhlátur.
“Já, einmitt,” segi ég en í stað þess að einblína á húsið kíkji ég nú yfir öxl Jogga – reyni að forðast að stara á fölsku tennurnar –  og inn í leigukofann til að sýna að það gæti kannski verið eitthvað inni í kofanum sem hann ætti að sýna mér áður en hann segði bless. Ég þrái að hann segi bless. En Joggi var algerlega sokkinn inn í söguna af skattaskuldarnum nágranna sínum.
“Já, ég sagði einu sinni við, Kelly, þegar ég var búinn að tala við Tracy. Ég er einmitt í stjórn ferðamálanefndar bæjarins og Kelly er formaður. Kelly er á ferðalagi niður í Vancouver. Hún er í Vancouver í dag, ætli hún komi ekki seinnipartinn. Ég sagði einu sinni við Kelly,” smáhlátur og fölsku tennurnar blika í sólinni. “Ég sagði við Kelly, á fundi í nefndinni. Við höldum nefnilega alltaf fundi einu sinni í mánuði. Alltaf á þriðjudögum og borðum saman hjá Sharks… veitingahúsinu. Eigandinn er nefnilega vinur minn, sá sami og gaf mér bókina sem ég hélt á þegar þið komuð niður innkeyrsluna, var að kíkja í hana…” Smáhlátur. “Ég var svaramaður hans þegar hann gifti sig …”
Nú var um það bil að líða yfir mig af leiðindum. Malið í Jogga og smáhláturinn var komið í einn graut í höfðinu á mér og nú gat ég ekki annað en starað á fölsku tennurnar upp í munninum á honum. Ég þráði ekkert heitara en að fá að setjast og fá frið. Ég reyndi að ná augnkontakt við Sus svo hún gæti bjargað mér úr þessari geðveiki. Hún tók ekki eftir neinu.
Og Joggi hélt áfram. “Vinur minn, sá sem á Shark, hann gifti sig ….”
“Nei,” hrópaði ég algerlega ósjálfrátt og næstum ruddi mér fram hjá Jogga, sem þagnaði en hálfhló samt. Mér tókst að komast inn og Joggi kom hissa á eftir mér.
“Takk…  ég gleymdi, ég er með kælivörur í bílnum… ég verð að segja þær í ísskáp,” sagði ég og strunsaði að útidyrunum. Joggi kvaddi hálfhlæjandi.
Ég settist niður þegar Joggi var farinn.
“Hvað er ekki allt í lagi?” sagði Sus og horfði bæði hissa og áhyggjufull á mig.
“Ha, jú, ég er bara eitthvað þreyttur í hausnum eftir keyrsluna,” sagði ég og vildi alls ekki koma með neikvæð ummæli um þennan fyrirtaks náunga sem vildi allt fyrir okkur gera.

Daginn eftir buðu Joggi og Kristína okkur í hádegismat. Stórkostlega gestrisið fólk. Það dæmdist á mig að sitja við hliðina á Jogga. Undir hádegismatnum uppgötvuðu aðrir fjölskyldumeðlimir hvað maðurinn var ótrúlegt náttúrutalent í leiðindum. Hann greip hvert tækifæri til að fá orðið. Nokkrum sinnum þegar kona hans talaði sagði Joggi ákafur, en hálfhlæjandi. “Má ég… má ég nú segja mína sögu?” Hehe. Og svo byrjaði einhver undarleg saga, án upphafs og án endis sem var brotin upp með þessum ægilega hálfhlátri.

Sumir eru bara leiðinlegir, eins og sumir eru fallegir, eða fyndnir… Joggi var bara svo óheppinn að vera eðlisleiðinlegur.

IMG_7353
Náttúrufegurðin í Kanada.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.