Kanada, Sunshine Coast. Minnisbókin

Í hádeginu í dag var hringt í mig frá Íslandi. Ég var á göngu á leið að fá mér kaffi á kaffihúsi niður í litla þorpinu hérna rétt hjá. Á hinum enda línunnar var ungur maður sem kynnti sig með nafni sem ég kannaðist ekki við. Mér heyrðist hann kalla sig Högni eða Uggi. Ég þekki bara einn Ugga, Ugga Jónsson, mikinn heiðursmann, en þetta var ekki hann. Ég tók manninum vel og sagði honum að ég væri í útlöndum og bað hann því að bera erindið hratt upp svo hvorki ég né hann færi á hausinn vegna símakostnaðar.

Hann virtist eiginlega ekki taka eftir þessari hvatningu því hann dró mjög seiminn og var með allskyns vafninga. Virtist ekki vita hvernig hann ætti að bera upp erindið. Ég íhugaði meira að segja að skella á hann, ég var farinn að halda að þetta væri eitthvert at. En svo kom hann sér loks að efninu.
“Ég fann bleika minnisbók á kaffihúsi í Bankastræti í dag. Og nafnið þitt er í bókinni. Ég vildi bara láta þig vita ef þú vildir sækja bókina,” sagði hann með sinni dimmu röddu.
“Bleik minnisbók með nafninu mínu? Ég er í útlöndum svo þetta getur ekki verið mín minnisbók. Ég hef ekki verið á Íslandi í marga mánuði. Er bókin merkt mér?”
“Ja… merkt, bíddu… Nei, hún er ekkert merkt, en nafnið þitt er skrifað í bókina. Nafnið þitt er á mörgum síðum.”
“Þetta finnst mér stórundarlegt. Nú…  en þetta er ekki mín bók. Það er einhver annar sem hefur skrifað nafnið mitt í þessa minnisbók. Hvað er annað í þessari bók? Í hvaða samhengi er nafnið mitt?”
Aftur byrjaði maðurinn að humma. Það var eins og hann blaðaði í bókinni um leið og hann gaf frá sér öll þessi hikhljóð. “Sko… bíddu nú við… uhhhh… já…já, hérna.”

Ég var auðvitað forvitinn að heyra hvað væri skrifað en samtímis hafði ég ekki þolinmæði í allt þetta. Ég tók eftir að ég hafði staðnæmst á miðri gangstétt fyrir utan kaffihúsið. Göngutúrinn hafði eiginlega alveg farið framhjá mér. Ég leit upp og horfði niður í höfnina þar sem  nokkrir smábátar lágu bundnir. Sjórinn var spegilsléttur og skjannabjört sólin glitraði á haffletinum. Sólaljósið var svo sterkt að ég varð að píra augun til að geta virt þessa fallegu hafnarsýn fyrir mér.

Loks sagði hann: “Sko… hér stendur til dæmis: Snæbjörn, skástrik, Snæi. Óskráður sími. Og svo stendur í næstu línu: Mennirnir tveir, annar með stórt nef. Og svo í línunni fyrir neðan. Fylgist með honum keyra niður á höfn. Næsta lína: Hann sat allan morguninn á kaffihúsi með þremur mönnum sem komu hver á eftir öðrum án þess að hittast.”
Ég gríp frammí fyrir honum. “Það eru nú til fleiri sem heita Snæbjörn og kallaðir Snæi. En þetta er ekki bók sem ég á. Þetta er einhver annar Snæbjörn. En þakka þér fyrir að láta mig vita.”
“Nei, bíddu. Það stendur nefnilega líka: Hann hefur prestshendur. Hann er sonur Arngríms.”
“Hann er sonur Arngríms? Já, það er ég. Þetta er nú í meira lagi dularfullt. Þetta minnir eiginlega á Paul Auster sögu.”
Enn hummar maðurinn. “Hér stendur líka. Undirbúningur að hefnd.”
“Undirbúningur að hefnd?” Ég þagði og íhugaði hvað þetta ætti að þýða. En flýtti mér svo að bæta við:  “En ég get bara ekki hjálpað þér. Ég á ekki þessa bók… og ég skil ekki afhverju  nafn mitt er í henni. Ég á bleika minnisbók og ég er viss um að hún er með mér í för,” sagði ég og var orðinn hálfráðvilltur og vildi eiginlega ekkert vita af þessari bók þótt ég væri jafnframt áhugasamur um að heyra meira.
“Viltu að ég sendi þér bókina? Nafn þitt kemur fyrir á fleiri stöðum.”
“Nei, takk,” svaraði ég ákveðinn.
Við kvöddumst.

IMG_7373
Tvö steikt egg í kvöldmatinn.

Í dag hefur mér títt verið hugsað til símtalsins og þessarar minnisbókar. Ég er auðvitað undrandi en dauðlangar líka að heyra hvað er meira skrifað um mig og mig langar að vita hver sé þar að verki og ekki síst; hvert sé tilefni þessara dularfullu skrifa. Minnisbókin mín bleika er hér. Ég hef gengið úr skugga um það.

Í kvöld steikti ég mér tvö egg.

dagbók

Ein athugasemd við “Kanada, Sunshine Coast. Minnisbókin

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.