Kanada, Sechelt. xpunkturis

Það var ekki langt ferðalagið í dag, kannski rúmlega tveggja tíma keyrsla. Við gáfum okkur góðan tíma til að ná á næsta áfangastað. Stoppuðum á Starbucks og fengum okkur ljómandi gott kaffi. Litum inn hjá kjötkaupmanni og keyptum þetta fína grillkjöt þar sem við vissum að í sumarhúsinu sem við vorum búin að leigja er gasgrill. Við lögðum bílnum líka við stórmarkað og keyptum vistir til næstu þriggja daga: Aldrei þessu vant höfum við stórt eldhús í sumarhúsinu og því auðvelt að elda þar góðan mat.

Við stefnum hægt og rólega á Vancouver, en fyrst millilendum við í útjaðri lítils bæjar á sólarströndinni sem heitir Sechelt. Hér verðum við næstu þrjár nætur í algerlega ótrúlegu sumarhúsi sem liggur við strandkant í löngum og mjóum innfirði. Og húsið er hreinasta höll miðað við það sem við höfum búið í síðustu vikur. Sus fann þetta hús á tilboði (þrjár nætur fyrir tveggja nátta verð). Húsið er perla. Útsýn yfir fjörðinn, vistarverur eru þægilegar, allir innastokksmunir eru vandaðir og notalegir, eldhúsið er fyrsta flokks og svo er gasgrillið á svölum með mögnuðu útsýni. Til að kóróna sæluna fær unglingurinn á heimilinu, Númi, sérherbergi á neðri hæð. Við erum sannarlega heppin.

IMG_7374
Á Starbucks

Dagurinn hefur liðið í mestu makindum. Við Sus fengum okkur göngutúr hér í skóginum eftir að við höfðum affermt bílinn. Eins og Davíð benti á er þetta í fyrsta skipti í 8 mánuði sem við erum ein á göngu. Strákarnir, eða að minnsta kosti Davíð, vilja alltaf vera í námunda við okkur. Fylgja okkur hvert fótmál. Að vísu var túrinn ekki eins langur og ég hafði óskað vegna þess að Sus er hrædd við birnina sem ganga hér um. Allt um kring eru svartabirnir á vappi. Venjulega eru þeir ekki hættulegir – þeir forða sér ef þeir verða varir við mannaferðir. En það kemur fyrir, sérstaklega ef þeir eru með húna, að þeir ráðist á fólk. Eftir gönguferðina byrjuðum við að undirbúa kvöldmatinn. Við höfðum keypt fínasta grillkjöt hjá slátraranum svo það var ekki annað hægt en að útbúa hina listugustu máltíð þar sem við höfðum bæði hið besta hráefni og þessa líka glæsilegu aðstöðu.

Símtalið frá í gær hefur aðeins truflað mig í dag. Ég hef ekki alveg getað ýtt þessari minnisbók úr huganum, þar sem ég á erfitt með að skilja að einhver færir inn nafn mitt í bleika bók. Hver er tilgangurinn með þessum minnispunktum og hvernig kemur nafn mitt inn í myndina. Og ekki síst hver skrifar þessa kostulegu minnispunkta. Merkileg tilviljun að ég á sjálfur bleika minnisbók sem ég nota aðallega til að hafa yfirsýn yfir þau handrit sem ég þarf að lesa.

Þegar síminn hringdi í gær var ég ekki alveg nógu klár í kollinum til að fá nafn mannsins sem hringdi. Allt kom svo flatt upp á mig. Mér heyrðist hann kynna sig sem Högni en eftir á að hyggja getur vel verið að hann hafi sagt Uggi. Í símanum mínum er ég með númerið sem hann hringdi úr. Núna í kvöld fór ég inn á já.is og fletti númerinu upp. Enginn var skráður fyrir þessu númeri. Ég brá á það ráð að reyna að googla símanúmerið og þar hafði ég heppnina með mér því í leitarniðurstöðum kemur fram, Auðhumla – mannauður og ráðgjöf. Ég geri ráð fyrir að þetta sé fyrirtækjanafn.

En svo kemur babb í báttin. Ef ég klikka á leitarhlekkinn kemur ekkert annað fram en að síðan sé hýst hjá xpunkuris. Sjálfri síðunni hefur verið eytt en einhverjar leifar eru hjá google af síðu sem einhvern tíma hefur verið í loftinu og tengst þessu símanúmeri. Ég fann enga heimasíðu fyrirtækis sem kallar sig þessu nafni. Þó eru mörg fyrirtæki sem hafa mannauð og ráðgjöf í titli. Í fyrirtækjaskrá eru þrjú fyrirtæki sem kalla sig Auðhumla. Afskráð götuleikhús, afskráð ostagerð og svo félag á Selfossi sem starfrækir mjólkurvinnslu. Sem sagt: ég er litlu nær um viðmælanda minn frá því í gær.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.