Kanada, Sechelt. Rauðhærða konan

Kannski hafði rauðhærða konan sem sat við hlið mér í kvöldverðarboði fyrir nokkru þau áhrif á mig að ég hef frestað því í marga mánuði að lesa nýjustu bók minnar miklu hetju, Kazuo Ishiguro. Eða er þetta bara hugsun sem sprettur fram í huga mér þegar ég ligg í rúminu mínu á hinum tómlegu stundum rétt fyrir dögun, Sus liggur og sefur vært mér við hlið.

Konan var þybbin, talaði hátt og var ófeimin að grípa orðið í þessu samkvæmi sem ég var gestur í. Ég sat heldur þögull, eins og mín er von og vísa, og fylgdist meira með samræðum en að vera virkur þátttakandi. Þegar leið á kvöldið og sessunautur minn hafði tæmt nokkur rauðvínsglös byrjaði hún að reykja og sneri sér að mér. Við höfðum nánast ekki yrt hvort á annað allt kvöldið. Ég lít á hana og tek eftir að í bliki hennar er þessi þunna himna sem leggst yfir augu hinna drukknu. Svo kemur örlítil ölvuð þögn á meðan hún virðir mig fyrir sér og vegur og metur sitt næsta framlag til veislunnar: „Segðu mér, ef þú mættir velja einn rithöfund, hvaða höfund sem er, eina bók, hvaða höfund myndir þú vilja gefa út?“

Spurningin kom flatt upp á mig. Svona hafði ég aldrei hugsað fyrr. Ég man að Mál og menning hafði það fyrir leik á árlegum uppgjörsfundi sínum upp í Hveradal að velja  bók af útgáfuverkum annarra forlaga sem Mál og menning hefði sjálft viljað hafa gefið út. Þetta var leikur hjá hinu gamla stórveldi og það þótti upphefð að lenda á þessum lista MM. En svo ég svari spurningu drukknu konunnar. Ég velti aðeins vögnum og sagði svo hiklaust: „Kazuo Ishiguro er minn maður. Ég vildi að ég mætti gefa út nýju bókina hans THE BURIED GIANT.“ Bókin var ekki komin út í Englandi en ég hafði heyrt að hann hafði skilað handriti að bókinni. Rauðhærða konan svarað með þjósti. „Kazuo Ishiguro! The Buried Giant! Bókin er drasl! Ég las hana fyrir Gyldendal og mælti ekki með að þeir gæfu hana út.“ Svo sneri hún bakinu í mig og yrti varla á mig það sem eftir var kvölds.

Ég hef átt bókina The Buried Giants núna í nokkra mánuði og hef bara rétt lesið fyrstu síðurnar. Það leið líka langur tíma frá því að bókin kom út áður en ég keypti hana. Þetta óskiljanlega hik var skrifað á rauðhærðu konuna í nótt. Í dag byrjaði ég að lesa bókina fyrir alvöru og fann um leið að bók Ishiguros var eins og hún átti að vera.

Ég fór í langan göngutúr seinnipartinn í dag, gekk greiðlega eftir fáförnum vegum hér í skóginum. Hinir fjölskyldumeðlimirnir voru heima enda fannst þeim þetta óðs manns æði að fara út að ganga meðal svartabjarna.  En ég er ekki hræddur. Meðfram bílveginum sem ég gekk eru fá hús en þau eru fín og standa upp í hlíð með útsýni yfir fjörðinn. Alls staðar vaxa tré. Kanada er eins og Finnland. Hér vaxa mörg tré.

Ég hafði gengið í um það bil 45 mínútur og var aftur á heimleið þegar ég gekk fram hjá stóru glæsihúsi sem tróndi yfir mér um það bil 50 metrum fyrir ofan veginn. Löng og brött heimkeyrsla liggur frá veginum og upp að breiðum bílskúrsdyrum. Ég tók eftir að ung stúlka, 18-19 ára stóð fyrir framan útidyr hússins með síma í höndunum og horfði einbeitt niður til mín. Svo tók hún skyndilega undir sig stökk, hljóp niður tröppur og niður heimreiðina, alltaf með símann fyrir framan sig. Ég vissi ekki hvað hún ætlaði sér stúlkan, en hún stefndi á mig svo ég hægði ósjálfrátt ferðina og fylgdist með hlaupum hennar. Hún kom út á veginn rétt fyrir framan mig,  sneri sér beint að mér með símann á lofti eins og hún væri að taka mynd af mér eða jafnvel hreyfimynd og nam þannig staðar. Ég brosti kurteislega, enda ályktaði ég sem svo að þetta væri einhver leikur hjá stelpunni. Hún svaraði ekki brosi mínu heldur horfði illilega á mig og alltaf með símann/myndavélina á lofti. Þetta var óskiljanlegt svo ég sagði með undrun í rómnum: „What is this supposed to mean?“ og benti á símann. Hún svaraði ekki heldur starði grimmilega á mig og gerði sig ekki líklega til að aðhafast annað en að taka mynd af mér.

Ég tók sveig fram hjá henni og hún fylgdi hverju fótspori með myndavélinni. Þótt ég væri nánast kominn í hvarf sá ég að hún stóð í sömu sporum  og tók myndir. Þessi hegðun kom mér ekki beint úr jafnvægi en ég setti hana ósjálfrátt í samband við áhyggjur mínar af þessari minnisbók sem hefur ásótt mig síðstu daga. Auðvitað veit ég að þetta tengist ekki á nokkurn hátt en þessi hugsun var það fyrsta sem kom í hugann.

Í morgun ákvað ég nefnilega að senda manninum með minnisbókina SMS. Ég hafði símanúmerið og mér fannst freistandi að fá að vita meira. SMS-ið hljómaði svona:
„Sæll. Snæbjörn hérna. Ég hef aðeins verið hugsi yfir símtalinu frá þér og minnisbókinni sem þú minntist á. Væri leið fyrir þig að senda mér mynd af einni opnu úr bókinni. Kannski kannast ég við skriftina. Best að maila á: snar@hrferdinand.dk. Kveðjur Snæi.“

Í kvöld hef ég enn ekki fengið svar.

IMG_7387
Úr gönguferð

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.