Kanada, Sechelt. Ný bókaútgáfa?

Annan daginn í röð fór ég einn í langan göngutúr út í svartbjarnarlandið. Ég hafði ákveðið að slá hraðametið frá því í gær. Ég er allur í að slá hraðamet, ég slæ endalaus hraðamet. Um fjögurleytið lagði ég af stað í mína 5 km göngu í hinu mikla skóglendi sem er hér allt um kring. Sólin var enn hátt á lofti, þótt klukkan væri að verða fjögur, og hitastigið var eins og á besta sumardegi í Reykjavík. Ég gekk greitt, mætti einstaka bíl en engum á göngu.

Ég hafði gengið rösklega 2 km þegar ég gekk fram á þrjár litlar stelpur, 9 eða 10 ára, sem sátu í vegakanti fyrir neðan eitt af fínu húsunum sem eru hér um kring. Fyrir framan þær var borð og á það var límt auglýsingaspjald. En þar sem ég gekk greitt náði ég ekki að lesa upplýsingarnar á spjaldinu. Ég hægði því ferðina örlítið til að spyrja þær hvort þær væru að selja eitthvað. Jú, þær seldu íste. „Nú, já,“ sagði ég, „ég kaupi kannski á bakaleiðinni,“ og strunsaði svo áfram.

Svo mundi ég, að ef ég ætlaði að endurtaka gönguna frá í gær og slá hraðametið þá mundi ég ekki koma sömu leið til baka. Ég velti þessu vandamáli fyrir mér örlitla stund; ég hafði bara sagt að ég kæmi kannski og keypti íste. En einhvern veginn var ég viss um að þær mundu bíða eftir mér, það var enginn vegfarandi á þessum slóðum, ég yrði bara að fórna hraðametinu og ganga aftur sama veg til baka.

Og það gerði ég. Fimmtán mínútum síðar var ég aftur kominn að ístesölubás stúlknanna þriggja. Tvær þeirra sátu á lágum stólum bak við litla borðið þeirra, þar sem ístekanna og plastglös stóðu. Sú þriðja sat við hlið þeirra á mölinni í vegarkantinum. Þær settu upp búðarsvip þegar ég kom og heilsuðu glaðlega. Ég nam staðar – nú þurfti ég ekki að slá hraðamet – og virti fyrir mér úrvalið. „Já, hvað er þetta sem þið eruð að selja?“
„Íste,“ sögðu þær allar í kór.
„Og hvað kostar svo eitt glas af íste?“ spurði ég.
„50 cent,“ svöruðu þær ákafar. Þetta var augljóslega fyrsta sala dagsins. Við hliðina á þeim var plastfata fyrir notuð plastglös. Hún var tóm.
„Eitt glas íste, takk,“ sagði ég og fálmaði eftir smápeningum í vasanum mínum. Ég fann tveggja dollara mynt.
„Það eru 50 cent,“ sagði stúlkan með búðartóni sem hellti ísteinu í plastglasið.
Ég rétti þeim 2 dollara myntina og sagði að ég borgaði með gleði 2 dollara fyrir ísteglas.
„Þá geturðu fengið aftur í glasið ef þú vilt.“
Ég drakk dísætt ísteið. „Þetta er bara gott,“ sagði ég kurteislega og lagði tóma glasið í plastfötuna. „Má ég kannski taka mynd af ykkur?“ spurði ég og hafði hugsað mér að birta mynda af þessum litlu sölukonum hér á Kaktusnum.
Þær litu hikandi hver á aðra. Og svo svaraði sú sem sat í mölinni. „Ég held ekki. Ég held að foreldrar okkar séu ekki hrifnir af því.“
Þetta svar kom ansi flatt upp á mig. Ég kvaddi því stúlkurnar án þess að fá mynd af þeim. En ég tók mynd af húsinu fyrir ofan veginn.

Eins og ég hef áður sagt les ég Karl Ove Knausgaard af miklum móð. Hann segir að sumu leyti mína sögu um leið og hann segir sína sögu í þessu sexbinda verki. Ég er upptekinn af honum, les viðtöl við hann í útlendu pressunni. Á göngunni í dag velti ég fyrir mér að gefa út öll 6 bindin á íslensku. Þetta er umtalaðasta útgáfuverk seinni ára, heillandi og áhugavert, veldur deilum, gleði og reiði. Til þess þyrfti ég að stofna nýja íslenska bókaútgáfu. Það er sennilega ekki vanþörf á því. Eru ekki bara tvö forlög á Íslandi? Ég er alveg til í að stofna íslenska bókaútgáfu og gefa út Knausgaard og fleira eðalgott. Ég hef meira að segja velt fyrir mér þýðendum að flokknum, fleiri en einum, því ef til vill væri bara best að gefa allar sex bækurnar út í einu. Sá fyrsti sem kemur í huga mér sem kjörinn þýðandi er Jón Hallur Stefánsson. Kannski ég spyrji hann, eða kannski ekki.

IMG_7418
Í dag vor bakaðar pop-up bollur með kaffinu.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.