Kanada, Vancouver. Leitin

Bakarinn hér í götunni hefur allar dyr opnar á bakaríinu sínu þegar hann kyndir ofnana svo kökuilmurinn leggst yfir nágrennið eins og dáleiðandi þoka. Um leið og ég vaknaði í morgun var ég komin í skóna og á leið til bakarans að kaupa nýbakað brauð og snúð. Svo heppilega vill til að nágranni okkar á neðri hæðinni, Starbucks, selur kaffi í pappaglösum sem maður getur tekið með sér hvert sem er. Góð byrjun á degi.

Nú tók við mikil rannsókn á hvar hægt væri að kaupa notaða tennisspaða. Hér í nágrenninu eru 20 tennisvellir en hvergi hægt að leigja tennisspaða. Því var eina ráðið að kaupa ódýra spaða. Við fundum búð langt í burtu sem auglýsti notaða tennisspaða. Við ákváðum að arka þangað, 12 km leið.

Að ganga um stórborgir er besta leiðin til að fá tilfinningu fyrir borginni. Vancouver er hin notalegasta borg, og borgarbúar virðast una sælir við sitt. Í tennisbúðinni reyndust ungir hipsterar ráða ríkjum og þeir vildu allt fyrir okkur gera. Seldu okkur ódýra spaða og settu meira að segja nýtt grip á handföngin okkur að kostnaðarlausu.

Á morgun, snemma, höldum við út á tennisvöll til að spila. Það er að segja ef ég vakna. Ég les núna langt fram á nætur. Er byrjaður á 6. bindi Min kamp eftir Knausgaard. Síðustu vikur hef ég því lesið næstum 2500 síður í bókum hans. Mér finnst hann interessant.

Í dag hafa tölvupóstar streymt frá Íslandi þar sem menn velta vöngum yfir áformum um nýja bókaútgáfu. Flestir hafa verið gífurlega jákvæðir. Sumir hafa meira að segja boðist til að vera með og leggja í púkkið, aðrir hafa komið með hvatningu, góð ráð og ábendingar.

IMG_7431
Vancouverhipsterar hafa ekki trú á nöldri. Framfarahugsuðir.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.