Hér á neðri hæðinni er kaffihús og kaffið er meira að segja mjög gott. Á hverjum morgni hef ég kvatt ferðafélaga mína, rölt niður og pantað mér tvöfaldan espresso í bolla. Ef maður tekur ekki fram að kaffið skuli vera í bolla fær maður drykkinn framreiddan í pappakrús. Mér finnst kaffið bara ekki eins gott þannig.
Það hefur verið fastur siður síðustu morgna að kasta kveðju á tvo eldri herramenn sem sitja alltaf við sama borðið, lesa í dagblöðum, drekka kaffi og spjalla. Þeir hafa alltaf verið ákaflega upprifnir þegar ég kem inn og heilsað mér bæði innilega og glaðlega. Veifa báðir til mín brosandi og sælir. Í morgun gengu þeir svo langt að bjóða mér sæti sér við hlið.
“Sestu hérna hjá okkur, langi maður,” sagði annar þeirra skælbrosandi og klappaði á borðið fyrir framan sig með hönd, sem bar gullhring á hverjum fingri. Hinn maðurinn, með kringlótt gleraugu í þykkri svartri umgjörð og klæddur í sérkennilegan hlébarðajakka, gerði merki um að hann vildi ákaflega mikið að ég kæmi til þeirra. Ég gat ekki annað en þegið þetta innilega boð. Þeir stukku báðir á fætur og flutti stóla svo ég gæti sest á móti þeim.
“Oliver,” sagði sá í hlébarðajakkanum og benti á sjálfan sig. Á höfðinu bar hann allsérstaka hárgreiðslu. Grátt, liðað hárið var greitt af mikilli vandvirkni aftur á hnakka og blásið með kröftugum hárblásara svo að langir hárlokkarnir í hnakkanum stóðu eins og reykstrókur aftur úr höfðinu.
“Camel,” sagði hinn og rétti mér höndina með öllum gullhringunum. Um hálsinn hafði hann svarta ól, einskonar hundaól með einhverri áritun sem ég gat ekki lesið.
“Snow,” sagði ég, þar sem ég nennti ekki að hlusta á þá undra sig yfir mínu íslenska nafni. “Ohh, Snow, welcome.” Ég var rétt sestur þegar gífurlega þungur vélardynur glumdi inn á kaffihúsinu sem stendur á götuhorni við umferðarljós. Við litum allir þrír upp og á rauðu ljósi beint fyrir utan gluggann voru þrír óvenjulegir bílar. Tveir af gerðinni Lamborghini, appelsínugulur og fjólublár og einn eldrauður Ferrari.
“Þessir þrír bílar kosta samanlagt örugglega 10 milljón dollara (samsvarar einum milljarði íslenskra króna),” sagði félagi minn í hlébarðajakkanum og nikkaði höfðinu í átt til bílana.
“Já,” samþykkti hinn.”Sjáðu þá sem keyra bílana. Þetta eru allt unglingar frá Kína.”
Og mikið rétt. Undir stýri þessara þriggja bíla sem röðuðu sér upp og biðu eftir grænu ljósi, sátu sautján eða átján ára kínverskir piltar með dökk sólgleraugu. Í öllum þremur bílunum.
“Sjáðu til,” sagði Oliver, maðurinn með hárgreiðsluna og hallaði sér í átt að mér. “Það er víst orðinn siður hjá fáránlega ríkum Kínverjum að senda börnin sín hingað til Vancouver, hér fær hin ríka kínverska æska hreint loft. Og svo geta þeir sent auðævi sín hingað á eftir þeim. Því þeir geta ekki flashað peningunum sínum í Kína. Það er bannað. Ef þeir virða það ekki verða þeir handteknir, pyntaðir og peningarnir hirtir af þeim. Enginn verður nefnilega ríkur í Kína á löglegan eða siðlegan hátt.” Hann hló og klappaði saman lófum.
“Vancouver er sú borg í heiminum sem hefur flesta Lamborghini bíla á skrá. Og allir eru bílarnir skráðir á kínverska borgara,” sagði Camel skælbrosandi. Ég er viss um að þetta er rétt því aldrei á ævi minni hef ég séð jafnmarga glæsibíla. Lamborghini er Vancouvers Toyota Corlolla.
Ég leit út um gluggann og virti fyrir mér bílstjórana þrjá sem augljóslega þekktust því þeir voru allir með höfuðið út um hliðarrúðurnar, skellihlægjandi í betri bíl.
“Á morgun, þegar Snow kemur að fá sér kaffi, skulum við koma honum á óvart,” sagði Oliver í hlébarðajakkanum kankvís og blikkaði vin sinn. Þeir brostu. Þetta voru spauglilegir gaurar. Ég dracc kaffið mitt og kvaddi.
ps. Ég tapaði tennisleik dagsins 6-4 fyrir Sus. Á morgun er dagur hefndarinnar.
