Kanada, Vancouver. Dagurinn

Sit hér hjá vinum mínum tveimur á kaffihúsinu á horninu. Þeir fagna öllum sem koma inn úr dyrunum, „góðan daginn, vá hvað þú ert í flottum stuttermabol… góðan daginn, hvað er þetta sem þú varst að panta, longshot?…“

Þegar ég kom inn á kaffihúsið í gær höfðu þeir undirbúið atriði. Þeir spruttu upp frá stólum sínum komu til mín með opnum örmum. Stoppuðu svo fyrir framan mig og bentu út um gluggan: „Þvílíkur dagur. Sólin skín. Himininn er blár. Við bjóðum upp á … paradís!“ Svo  slógu þeir á bakið á mér, hlógu og settust aftur í sæti sitt.

Dagarnir líða hér í hálffastri rútínu. Ég vakna um klukkan sjö, ligg svo í hálftíma og vakna í rólegheitunum. Sest svo upp og les tölvupósta næturinnar og svara því sem ég tel mig þurfa að svara. Fer á fætur og hleyp hingað niður á kaffihúsið panta kaffi til að taka með upp. Svo borðum við morgunmat, einfaldan morgunmat: musli, hafragrjón og kaffi. Eftir morgunmat er komið að tennisleik dagsins. Við röltum upp á tennisvöll sem er hér efst í götunni, inni í stórum almenningsgarði. Í dag vann ég leik dagsins. Davíð kemur venjulega með og hlustar á Hringadróttinssögu á meðan leikurinn fer fram. Eftir að við Sus höfum spilað, spila ég í tíu mínútur eða kortér við Davíð. Að leik loknum röltum við til baka eftir götunni okkar sem er afar róleg.

Ég er fljótur að skola af mér. Á meðan Sus fer í sturtu, klára ég að svara tölvupóstum þar til við erum tilbúin að fara út í bæinn. Á hverjum degi höfum við gengið meira en tíu kílómetra og kannað hin ólíku hverfi Vancouver borgar. Oft borðum við léttan hádegismat í einhverjum af götumatsöluvögnunum hér. Við stoppum í görðum og niður á strönd og í búðum og kaffihúsum. Allt í rólegheitum. Um sexleytið borðum við svo kvöldmat. Þar sem eldhúsið í íbúðinni okkar býður ekki upp á matseld setjumst við á veitingastað. Sus hefur algjörlega á hreinu hvaða staði best er að velja. Hér höfum við bara borðað asískan mat; tælenskan, japanskan, frá malasíu… Um klukkan hálfátta erum við komin aftur í íbúðina. Númi og Davíð horfa á kvikmynd eða seríu. Ég les eða skrifa í dagbókina þangað til ég sofna.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.