Kanada, Whistler. Hugarburður eða ekki

Í gær komum við til skíðabæjarins Whistler, sem liggur uppi í fjöllunum, einungis í um það bil tveggja tíma akstursfjarlægð frá Vancouver. Hér verðum við í þrjár nætur. Héðan frá skíðabænum keyrum við í nokkrum áföngum til Edmonton þaðan sem við fljúgum til Íslands þann 27. maí. Ég held að við öll fjögur séum farin að finna fyrir því að ferðin nálgast hratt endastöð sína. Enda ekki nema tvær vikur þar til við fljúgum til Danmerkur og þar með er hringferðinni lokið.

Mér hefur síðustu daga verið tíðhugsað til Íslands og hvað mín bíður þar. Öll þau ár sem ég hef búið í Danmörku og líka síðustu árin áður en ég flutti frá Íslandi hef ég að sumu leyti haft á tilfinningunni að ég sé óvelkomin á Íslandi. Þetta er auðvitað bara hugarburður, og ég geri mér grein fyrir því, en samt sem áður á ég í vandræðum með að ýta þessari tilfinningu frá mér. Ég á meira að segja erfitt með að láta vita að ég sé á leiðinni til landsins. Ég man að ég sagði þetta einu sinni við pabba minn í einni af heimsóknum mínum til Íslands, þegar við sátum saman við morgunverðarborðið í eldhúsinu í Álftamýrinni og borðuðum hafragraut sem hann eldaði stoltur fyrir mig. Á hverjum morgni áttum við sama samtalið:
Ég sit við eldhúsborðið yfir morgunblaðinu og hann kemur með rjúkandi hafragraut á diski, og kaffibolla, sem hann leggur fyrir framan mig en sest svo sjálfur við hinn enda borðsins með sinn hafragraut á diski.
„Takk,“ segi ég og byrja að borða hafragrautinn.
„Hva….? Notarðu ekki mjólk á hafragrautinn?“ segir pabbi og lítur undrandi á mig.
„Nei, þetta er bara fínt svona,“ segi ég.
„Þú verður að setja mjólk á hafragrautinn. Þetta er ómögulegt.“
„Nei, nei. Þetta er gott.“
„Ertu viss um að þú viljir ekki mjólk útá?“
„Já, mér finnst hafragrauturinn bara fínn án mjólkur.“ Stutt hlé.
„Drekkurðu þá aldrei mjólk?“
„Nei, ég drekk ekki mjólk.“ Þetta segi ég örugglega í tuttugasta skipti, þvi nákvæmlega þetta samtal er endurtekið í öllum mínum heimsóknum til Íslands og á hverjum morgni sem ég hef gist hjá pabba í Álftamýrinni. Og svo heldur samtalið áfram í sínum föstu skorðum.
„Það er ómögulegt. Þú færð þá ekkert kalk“
„Jú, jú, ég borða skyr á morgnana heima.“
„Er það nú nógu gott? Danskt skyr?“
„Já, það er fínt,“ sagði ég. En svo einn morguninn tók ég samtalið alveg inn á nýja braut.
„Það er svo skrýtið,“ segi ég, „að mér finnst ég alltaf svo óvelkominn þegar ég er hér á Íslandi, auðvitað ekki hér hjá þér, bara svona almennt.“
„Óvelkominn?“ Nú leit pabbi undrandi upp frá hafragrautnum. „Hvernig getur það nú verið? Þú ert ekkert óvelkominn. Það kemur mér á óvart að þú segir þetta. Ég hef alltaf haft á tilfinningunni að þú sért vinsæll.“  Þögn. „Mér finnst leiðinlegt að heyra að þér finnst þú vera óvelkominn,“ segir hann hugsandi. „En þú ert ekki óvelkominn.“

Í nótt dreymdi mig pabba við þetta sama eldhúsborð.

Síðasta kvöldið í Vancouver fórum við á frábæra tónleika í snotru tónleikahúsi í miðbæ Vancouver. Sinfoníuhljómsveit borgarinnar lék verk eftir Mozart, Schnittke, Valentyn Silvestrov og Beethoven. Þetta voru mjög fallegir tónleikar og í rauninni ógleymanlegir. Ég segi það enn. Ef ég  verð gamall vona ég að ég fái bara að hlusta á músik. Þá verð ég til friðs.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.